Hugmyndir að útisýningu

15 apr
15. apríl 2015

Listvinafélagið í Hveragerði kynnir hugmyndir að útisýningu í Listasafni Árnesinga á aðalfundi félagsins sem haldinn verður sunnudaginn 19. apríl n.k. kl. 11 í Listasafni Árnesinga og eru allir velkomnir.

Kynningarsýning á hugmyndum félagsins að útisýningu um listamennina í Hveragerði sem áformað er að verði staðsett í Lystigarðinum á Fossflöt verður gestum til sýnis í safninu á opnunartíma þess frá og með 16. apríl til og með 26. apríl sem jafnframt er lokadagur sýningarinnar ÁKALLs. Á aðalfundinum verður sýningin til umfjöllunar og gefst gestum þá einnig tækifæri til þess að ræða um sýninguna við hönnuðinn og aðstandendur hennar. Samhliða kynningarsýningunni er leitað til gesta um ábendingar og hugmyndir til þess að fjármagna framkvæmd útisýningarinnar.

Einnig er vert að benda á vef félagsins listvinir.is sem hefur að geyma tímalínu um listamenn sem starfað hafa í Hveragerði. Þar er þér m.a. boðið að skrá upplifun þína eða minningar, sem tengjast verkum Hveragerðisskáldanna eða annarra listamanna í Hveragerði eða ef þú hefur frá einhverju að segja sem snertir líf þeirra og list. En tilgangur félagsins er einmitt að eiga samtal við íbúana og halda sögunni til haga fyrir komandi kynslóðir.

Nánari upplýsingar:
Guðrún Tryggvadóttir formaður Listvinafélagsins í Hveragerði og hönnuður útisýningarinnar, sími: 863 5490 , netfang: gunna@nature.is

Aðalfundur 2015

08 apr
8. apríl 2015

Aðalfundur félagsins verður haldinn sunnudaginn 19. apríl 2015, kl. 11.00 í Listasafni Árnesinga.

Fundarefni:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
Á aðalfundi 2015 skal kjósa formann til þriggja ára og 2 aðalmenn og 1 varamann til tveggja ára. Þeir sem eiga að ganga úr stjórn að þessu sinni eru: Svanur Jóhannesson og Inga Jónsdóttir í aðalstjórn og Hlíf S. Arndal í varastjórn.
Lagabreytingar hafa ekki borist til formanns að þessu sinni.
Lagt er til að félagsgjald verði óbreytt kr. 2.000.

2. Útisýning Listvina í Lystigarðinum í Hveragerði, kynning á verkefninu.

Listvinafélagið býður félagsmönnum upp á súpu í hádeginu.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta.

F.h. stjórnar Listvinafélagsins í Hveragerði.
Guðrún A. Tryggvadóttir
formaður.

Listvinafélagið í Hveragerði – Opnar vinnustofur

30 okt
30. október 2014
Safnahelgi á Suðurlandi verður opnuð í Versölum í ráðhúsi Þorlákshafnar fimmtudaginn 30. október kl. 16-18.  Allir eru velkomnir á opnunarhátíðina og í boði verða spennandi erindi um safnastarf og samfélagið, léttar veitingar og tónlistarflutningur. Í kjölfarið verða viðburðir um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember. Hægt er að skoða dagskrána á http://www.sudurland.is/vidburdir-sudurlandi eða fá upplýsingar í næsta safni eða setri.
Eftirtaldir félagar í Listvinafélagi Hveragerðis opna vinnustofur sínar um Safnahelgina:
Laugardaginn 1. nóvember á degi myndlistar kl. 14 – 17
Gréta Berg, myndlistarkona og hjúkrunarfræðingur.
„Lifandi vinnustofa“ að Kambahrauni 35 (v-megin við húsið)
Guðrún Tryggvadóttir, myndlistarmaður.
Vinnustofa í bílskúrnum að Breiðahvammi í Ölfusi (gult hús og gulur bílskúr)
Víðir Mýrmann, listmálari.
Vinnustofa, í Egilsstöðum, gamla barnaskólahúsinu, neðri hæð.
Laugardaginn 1. nóv. á degi myndlistar og sunnudaginn 2. nóv. kl. 13-16
Félagar í Myndlistarfélagi Árnesinga
vinnustofur í Egilsstöðum, gamla barnaskólahúsinu, efri hæð.
Sunnudaginn 2. nóv. kl. 14-17
Guðmundur Hinriksson, myndverk í Borgarhrauni 2, húsi og skúr
Listamannabærinn Hveragerði – sýningin Listvinafélagsins í Hveragerði um listamennina sem fyrstir byggðu Hveragerði eru til sýnis í afgreiðslu Sundlaugarinnar í
Laugaskarði og við matstofu Heilsustofnunar NLFÍ á opnunartímum stofnananna.

Listamenn í Hveragerði bjóða heim – Safnahelgi á Suðurlandi

21 okt
21. október 2014

Listvinafélagið í Hveragerði skorar á félaga sína að opna vinnustofur og aðrar stofur á Safnahelgi á Suðurlandi sem haldin verður dagana 30. okt. – 2. nóvember 2014. Hugmyndin er að listamenn úr öllum listgreinum bjóði í upplestra heima í stofu, opni vinnustofur sínar, bílskúra o.s.frv. fyrir gestum í ákveðin tíma föstudag, laugardag eða sunnudag.

Við munum síðan setja tilkynningu um hvar, hverjir og kl. hvað tekið er á móti gestum hjá hverjum og einum í frétt á heimasíðu okkar listvinir.is, á heimasíðu bæjarins og upplýsingarnar munu einnig liggja frammi í Listasafni Árnesinga og á Bókasafninu í Hveragerði.

Ennfremur verður sagt frá opnum húsum í Hveragerði í dagskrá safnahelgarinnar á sudurland.is

Vinsamlegast hafið samband við Guðrúnu Tryggvadóttir í síma 483 1500 eða 863 5490 eða á listvinir@listvinir.is.

Vinsamlegast bregðist við sem fyrst því áætlað er að dagskráin liggi fyrir í lok vikunnar.

Safnahelgin verður opnuð í Versölum í ráðhúsi Þorlákshafnar fimmtudaginn 30. október kl. 16-18.  Allir eru velkomnir á opnunarhátíðina og í boði verða spennandi erindi um safnastarf og samfélagið, léttar veitingar og tónlistarflutningur.  Í kjölfarið verða viðburðir um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember. Hægt verður að skoða dagskrána á www.sudurland.is eða fá upplýsingar í næsta safni eða setri.

Viðburðaríkur laugardagur 27. september

26 sep
26. september 2014

Kl. 12 á hádegi verður sýningin Prentsmiðjueintök – prentsmiðjusaga Íslands opnuð á Bókasafninu í Hveragerði
Uppistaða sýningarinnar eru bækur og blöð sem Svanur Jóhannesson hefur safnað um árabil frá flestum prentsmiðjum sem verið hafa starfandi á Íslandi, einn gripur frá hverri prentsmiðju. En auk þess höfum við fengið að láni ýmsar fornbækur til að fylla upp í söguna og ná enn fleiri prentsmiðjum með. Einnig verður lítil prentvél til sýnis og gripir sem tengjast prentun.  Samhliða söfnuninni hefur Svanur tekið saman upplýsingar um prentsmiðjurnar, eigendur þeirra og um bækurnar og hefur nú gefið út á bók sem sýningargestir geta skoðað – og kannski keypt.

Við opnunina segir Svanur frá og boðið verður upp á súpu og brauð þar sem þetta er nú í hádeginu.

Bókasafnið í Hveragerði er á Facebook.

Kl. 14 verður stofnfundur Bókabæjanna austanfjalls  á sal Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Bókabæirnir eru Árborg (Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri), Hveragerði og Þorlákshöfn. Á stofnfundinum verður kynning á verkefninu, ávörp forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar, Richards Booth stofnanda fyrsta bókabæjarins í Hay-on-Wye, Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra, Kristínar Helgu Gunnarsdóttur form. Rithöfundasambands Íslands, Guðmundar Brynjólfssonar rithöfundar og Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra í Hveragerði. Einnig verða tónlistaratriði og ljóðalestur.  Fundargestir geta skráð sig sem stofnaðila bókabæjanna.

Bókabæirnir austanfjalls eru á Facebook.

Kl. 16 opna svo tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði
Listasafnið verður opið til kl. 18 svo hægt verður að ná að skoða sýningarnar þótt fundurinn á Selfossi dragist eitthvað.