19 jún

Kristmann Guðmundsson

Kristmann Guðmundsson fæddist 23. október 1901 að Þverfelli í Lundarreykjadal og ólst upp hjá móðurforeldrum sínum. Hann fór ungur að heiman til að vinna fyrir sér. Stundaði nám við Samvinnuskólann.
Flutti til Noregs og var við nám í Voss, Lofthus og Aarnes.
Bjó lengst af í Osló, en ferðaðist víða um Evrópu. Flutti heim til Íslands 1939. Hann var mikilvirkur höfundur og dáður í Noregi og víða um lönd. Verk hans voru þýdd á 40 tungumál m.a. á kínversku. Kristmann var kunnastur fyrir skáldsögur sínar en hann var líka smásagnahöfundur, ljóðskáld og þýðandi.
Sagan Morgunn lífsins var kvikmynduð af þýskum aðilum 1955. Heildarsafn ritverka hans var gefið út hér á landi.

Síðsumar undir Hamrinum

Sæt er angan úr sölnandi gróðurhögum;
sefur nú bylgjan frammi við lága strönd;
öll náttúran glitrar, eins og á æskudögum,
frá efstu brúnum að hafdjúpsins sjónarrönd.

Frá þorpinu heyrist hlátur og söngur barna,
hljómur hins sigrandi lífs í gleði og fró;
líðandi stund varpar ljóma á veginn farna
og langt inn í ókomna tíð geislar öryggi og ró.

Hér skynjar mín sál að vígöld og vargöld nauða
vera mun él eitt, er stjórna hin æðstu rögn;
öskur og trylling heimsins hamingjusnauða
und Hamrinum mínum falla í gleymsku og þögn.

En ilmandi þögnin birtir mér óminn bjarta
af brimi lífsins, er flæða skal endalaust,
og fögnuður vorsins fyllir mitt unga hjarta,
þótt fölni laufið og bráðum sé komið haust.

Frumútgáfur á norsku

Islandsk kjærlighet 1926
Brudekjolen 1927
Armann og Vildis 1928
Livets morgen 1929
Sigmar 1930
Den blaa kyst 1931
Det hellige fjell 1932
Den förste vaar 1933
Hvite netter 1934
Jordens barn 1935
Lampen 1936
Gudinden og oksen 1938

Frumútgáfur á íslensku

Rökkursöngvar 1922
Nátttröllið glottir 1943
Félagi kona 1947
Kvöld í Reykjavík 1948
Leikmannsþankar 1949
Þokan rauða I 1950
Þokan rauða II 1952
Höll Þyrnirósu 1952
Kristmannskver, ljóð 1955
Heimsbókmenntasaga I 1955
Heimsbókmenntasaga II 1956
Ferðin til stjarnanna 1959
Ævintýri í himingeimnum 1959
Ísold hin svarta 1959
Dægrin blá 1960
Loginn hvíti 1961
Völuskrín 1961
Ísold hin gullna 1962
Garðaprýði 1962
Torgið 1965
Skammdegi 1966
Tilhugalíf 1968
Blábrá 1968
Smiðurinn mikli 1969
Sumar í Selavík 1971
Brosið 1972
Leikur að ljóðum 1974
Stjörnuskipið 1975
Haustljóð 1981

Þýðingar

Thornton Wilder – Örlagabrúin 1947
Karl Bjarnhof – Fölna stjörnur 1960
Flestar bækur Kristmanns á norsku komu út á íslensku í eigin þýðingu hans.