19 jún

Jóhannes úr Kötlum

Jóhannes úr Kötlum fæddist 4. nóvember 1899 að Goddastöðum í Dölum.
Lauk kennaraprófi 1921. Kennari 1917–33. Hann sat á Alþingi sem varamaður 1941. Hlaut verðlaun fyrir hátíðarkvæði á Alþingishátíðinni 1930 og Lýðveldishátíðinni 1944.
Fékk Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun dagblaðanna 1970 og var tilnefndur tvisvar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Jóhannes hóf skáldferil sinn sem nýrómantískt skáld á þriðja áratugnum, en var síðan í broddi fylkingar róttækra skálda á kreppuárunum. Eftir stríð gerði hann sína eigin formbyltingu og endurnýjaði kveðskap sinn af frumleika og listfengi.
Hann var alla tíð öflugur baráttumaður fyrir friði og gegn erlendri hersetu. Á þriðja hundrað tónsmíða eru til við ljóð hans.

Íslendingaljóð 17. júní 1944

Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi:
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
– – ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.
——-
Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki ung og frjáls
undir norðurljósum.

Útgefin verk

Bí, bí og blaka 1926
Álftirnar kvaka 1929
Ég læt sem ég sofi 1932
Jólin koma 1932
Ömmusögur 1933
Og björgin klofnuðu 1934
Samt mun ég vaka 1935
Hrímhvíta móðir 1937
Fuglinn segir 1938
Hart er í heimi 1939
Eilífðar smáblóm 1940
Bakkabræður 1941
Verndarenglarnir 1943
Sól tér sortna 1945
Ljóðið um labbakút 1946
Dauðsmannsey 1949
Siglingin mikla 1950
Frelsisálfan 1951
Sóleyjarkvæði 1952
Hlið hins himneska friðar 1953
Sjödægra 1955
Roðasteinninn og ritfrelsið 1958
Vísur Ingu Dóru 1959
Óljóð 1962
Tregaslagur 1964
Vinaspegill 1965
Mannssonurinn 1966
Ný og nið 1970

Þýðingar

K. Capek – Salamöndrustríðið 1946
Annarlegar tungur 1948
H. Fast – Fimm synir 1954
B. Polevoj – Saga af sönnum manni 1955
A. S. Makarenko – Vegurinn til lífsins I-II 1957-58
A. Mykle – Frú Lúna í snörunni 1958
Þýddi fimm barnabækur ásamt Sig. Thorlacius

Vefsetur