28 maí

Listvinafélagið í Hveragerði

Hveragerðisskáldin 1933-1974
Árið 2004 gaf Hveragerðisbær út bókina „Hveragerðisskáldin 1933-1974” en höfundur hennar er Pjetur Hafstein Lárusson skáld. Ári síðar var boðað til fundar í Hveragerði, þar sem Pjetur kynnti þá hugmynd að stofna félag sem beitti sér fyrir því að koma upp safni um listamennina sem hér bjuggu.
Listvinafélag Hveragerðis var stofnað árið 2007 og félagið vann að því að safna bókum skáldanna í sérsafn sem varðveitt er hjá Bókasafninu í Hveragerði.

Hveragerði – vin skáldanna
Árið 2011 hafði Félag eldri borgara í Hveragerði frumkvæði að sýningu um skáldin og var Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistarmaður fengin til að hanna og stýra sýningunni.
Sýningin „Hveragerði – vin skáldanna“ kveikti  neista sem varð til þess að Listvinafélag Hveragerðis var endurreist í byrjun árs 2012 og einsetti félagið sér að koma upp varanlegri sýningu en markmið félagsins er að efla menningarlíf og mynda tengingar milli listamanna og listunnenda í Hveragerði og víðar, m.a. með sýningum og viðburðum í samvinnu við söfn og bæjarfélög á landinu öllu.

Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin
Þessi sýning er einnig hönnuð og undir stjórn Guðrúnar Arndísar Tryggvadóttur og er fyrsta sýning Listvinafélags Hveragerðis.
Mikill metnaður og áhugi er hjá félagsmönnum, en fyrirhugað er að stækka sýninguna í skrefum og kynna fleiri skáld, rithöfunda, myndlistarmenn og tónskáld til leiks.
Sjórn Listvinafélags Hveragerðis þakkar öllum stuðningsaðilum, án þeirra hefði sýningin ekki orðið að veruleika.

Meginmarkmið

Markmið Listvinafélags Hveragerðis er að efla menningarlíf og mynda tengingar milli listamanna og listunnenda í Hveragerði með:

  • því að mynda kjarna um lifandi menningarstarf og efla nýsköpun á sviði lista og miðlun menningarupplýsinga.
  • stofnun færanlegrar sýningar um skáldin sem mótuðu sögu bæjarins.
  • undirbúningi að stofnun menningarseturs, sem safna mun skipulega eins miklu og hægt er af verkum skálda og annarra listamanna bæjarins og koma því á framfæri á áhugaverðan hátt
  • sýningum og uppákomum í samvinnu við söfn, bæjarfélög, ferðamálayfirvöld og menningarsetur víðs vegar um landið.
  • framsetningu efnis á prenti og í veftæku formi, þýddu á nokkur tungumál.
Undirmarkmið

Varðveisla menningararfleifðar þeirrar sem felst í lífsverki þeirra listamanna (rithöfunda og skálda) sem búið hafa eða dvalið langdvölum í Hveragerði og búa þannig um hnútana að efni um þá verði varðveitt og framreitt á áhugaverðan og upplýsandi hátt fyrir núlifandi íslendinga sem og erlenda ferðamenn og komandi kynslóðir.
Að mynda kjarna um lifandi menningarstarf í kringum þá arfleifð sem til staðar er og efla nýsköpun á sviði lista og miðlunar menningarupplýsinga.

Stjórn 2016

Formaður: Inga Jónsdóttir.
Ritari: Njörður Sigurðsson. Gjaldkeri: Svanur Jóhannesson. Meðstjórnandi: Hlíf S. Arndal. Meðstjórnandi: Guðrún Tryggvadóttir.
Varamaður: Sæunn Freydís Grímsdóttir.