01 mar

Lög Listvinafélagsins í Hveragerði

1.gr.
Nafn félagsins er: Listvinafélagið í Hveragerði, skammstafað LVH. Kt.: 460612-1010.

2.gr.
Heimili félagsins er í Hveragerði og varnarþing í Árnessýslu.

3.gr.
Markmið Listvinafélagsins í Hveragerði er að efla menningarlíf með námskeiðum, sýningum og viðburðum í samvinnu við söfn, bæjarfélög, ferðamálayfirvöld og menningarsetur víðs vegar um landið. Einnig að halda á lofti minningu þeirra listamanna sem fyrstir bjuggu í listamannabænum Hveragerði og kynna þá sem á eftir hafa komið.
Stjórn félagsins er falið að vinna áætlun um verkefni fyrir starfsárið og kynna fyrir félögum.

4.gr.
Rétt til veru í félaginu hafa þeir sem áhuga hafa á því að vinna að markmiðum félagsins.

5.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, þ.e.: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og að auki tveim varamönnum. Formaður skal kosinn sérstaklega til þriggja ára. Aðra stjórnarmenn og einn varamann skal kjósa til tveggja ára (í fyrsta skipti skal kjósa 2 stjórnarmenn og einn varamann til eins árs.) Kosið skal um tvo stjórnarmenn og einn varamann árlega. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Heimilt er að endurkjósa fráfarandi stjórnarmenn, gefi þeir kost á sér.

6.gr.
Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga árlega.

7.gr.
Formaður boðar stjórnarmenn, bæði aðal- og varamenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir.

8.gr.
Aðalfundur skal haldinn í mars ár hvert.
Starfstímabil félagsins er milli aðalfunda, en reikningsár miðast við almanaksár. Aðeins skuldlausir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Fundir skulu boðaðir með tölvupósti en bréflega til þeirra sem ekki hafa netið. Aðalfund skal boða með tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundir eru löglegir ef löglega er til þeirra boðað.

9.gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Fundur settur, fundarstjóri og fundarritari skipaðir.
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar lagðir fram.
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
5. Reikningar bornir undir atkvæði.
6. Lagabreytingar.
7. Ákvörðun um félagsgjöld.
8. Starfsáætlun næsta árs lögð fram..
9. Kosning formanns.
10. Kosning stjórnar og varamanna.
11. Kosning skoðunarmanna reikninga.
12. Kosning nefnda.
13. Önnur mál.

10.gr.
Árgjald skal ákveðið á aðalfundi.

11.gr.
Félagið getur aflað fjár með styrkjum, gjöfum og þátttökugjaldi á sýningum. Félagið getur ekki skuldbundið félagsmenn sína á nokkurn hátt.

12.gr.
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Gerð skal grein fyrir lagabreytingum í aðalfundarboði. Leggist félagið niður af einhverjum ástæðum skulu eignir þess, ef einhverjar eru, renna til menningarmála í Hveragerði. Félaginu verður því aðeins slitið, að 60% fundarmanna á lögmætum aðalfundi samþykki, og það síðan samþykkt með minnst 60% greiddra atkvæða við almenna, skriflega, atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna.

13.gr.
Markmið félagsins er ekki að afla félagsmönnum eigna og samrýmist það því ekki tilgangi slíks félags að ráðstöfun eigna við slit þess sé til félagsmanna sjálfra.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins 15. mars 2014 og öðlast gildi við undirskrift stjórnar.

Hveragerði, 15. mars 2014.

Undirskriftir.