Jólin koma gefin út á ensku

02 des
2. desember 2015

Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum er nú komin út í enskri þýðingu Hallbergs Hallmundssonar. Bókina prýða sem fyrr frábærar teikningar Tryggva Magnússonar. Jólin koma hefur í áratugi verið ein vinsælasta barnabók í flokki ljóða sem gefin hefur verið út á Íslandi og verið endurprentuð meira en þrjátíu sinnum.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebook.

Af hverju þarf ég að lesa?

09 nóv
9. nóvember 2015

Málþing Bókabæjanna austanfjalls:

Af hverju þarf ég að lesa?
Haldið fimmtudaginn 12. nóvember 2015 kl. 17:30 í Ráðhúsi Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn.

Dagskrá
17:30 – Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra setur málþingið.
17:40 – Gylfi Jón Gylfason.
18:00 – Margrét Tryggvadóttir: Skipta barnabækur máli?
18:20 – Gerður Kristný: „Bækur breyta heiminum“.
18:40 – Hlé
19:10 – Lára Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO: „Komdu með á hugarflug“.
19:30 – Andri Snær Magnason.
19: 50 – Spurningar úr sal.
20:00 – Dagskrárlok

Bókabæirnir austanfjalls vilja auka hróður barnabókarinnar og vekja athygli á mikilvægi barnabóka í eflingu læsis. Því munu þeir standa fyrir málþinginu „Af hverju þarf ég að lesa?“ sem er sjálfstætt framhald Barnabókahátíðar Bókabæjanna austanfjalls sem haldin var í í Bókabæjunum austanfjalls 18. og 19. september 2015. Inntak málþings er barnabókmenntir og læsi – hlutverk barnabókarinnar í eflingu læsis. Spurningunum „af hverju erum við að þessu?“ og „af hverju þurfa börn að lesa?“ verður svarað frá hinum ýmsu sjónarhornum.

Opnar vinnustofur á Degi myndlistar

26 okt
26. október 2015

Dagur myndlistar verður haldinn hátíðlegur um allt land laugardaginn 31. október en það er árlegur viðburður sem Samband íslenskra myndlistarmanna stendur fyrir. Dagurinn er hugsaður sem vitundarátak með það að markmiði að auka þekkingu landsmanna á starfi íslenskra myndlistarmanna.
Eins og undanfarin ár opna nokkrir félagar í Listvinafélaginu í Hveragerði vinnustofur sínar á Degi myndlistar. Þeir eru:

Norma Elísabet Samúelsdóttir, Heiðarbrún 72. Opið er hjá Normu á milli kl. 14 og 17.

Yfirskrift opinnar vinnustofu hjá Grétu Berg er „Listin og hugleiðslan“ en Gréta er með vinnustofu að Kambahrauni 35 og er opið frá kl. 14 til kl. 20.

Víðir Mýrmann er með vinnustofu í gamla barnaskólanum í Hveragerði og tekur á móti áhugasömum á mili kl. 13 og 18. Vinnustofa Víðis er á jarðhæð, gengið inn ganginn til vinstri.

Andrína, Guðrún Jónsdóttir er með vinnustofu sína að Laufskógum 3 og tekur á móti gestum frá kl. 10 til 14.

Stúdíó Spói við Breiðumörk verður opið milli 13 og 17 en þar hafa þær Oddný Runólfsdóttir, Sigríður Ása Ásgeirsdóttir og Andrína Guðrún Jónsdóttir vinnustofur sínar auk þess að reka þar gallerí.

Þessa helgi opnar í Listasafni Árnesinga sýning okkar á nýrri og eldri sýningum um Listamannabæinn Hveragerði og því tilvalið að kíkja þar við eftir vinnustofuheimsóknirnar

Mynd: „Gulur“ eftir Víði Mýrmann.

Safnahelgi á Suðurlandi og sýning Listvina í Listasafni Árnesinga

26 okt
26. október 2015

Fjölbreytt dagskrá í Listasafni Árnesinga Safnahelgina 30. okt.-1. nóv.

Mörk er heiti nýrrar sýningar sem nýbúið er að opna í Listasafni Árnesinga þar sem sjá má verk eftir Eygló Harðardóttur, Jónu Hlíf Halldórsdóttur, Karlottu Blöndal og Ólöfu Helgu Helgadóttur.  Verk þeirra eru margbreytileg en eiga það sameiginlegt að vera að mestu unnin úr pappír og þær fást við mörk miðilsins.

Listamannabærinn Hveragerði er sýning sem hönnuð er af Guðrúnu Tryggvadóttur myndlistarmanni  og formanni Listvinafélagsins í Hveragerði (www.listvinir.is). Föstudaginn 30. október kl. 17 verður sýningin sameinuð á ný almenningi til sýnis í Listasafni Árnesinga um leið og fyrirhuguð útisýning félagsins er kynnt og boðið upp á léttar veitingar. Sýningin var fyrst sett upp í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk sumarið 2012 og kynnir fyrstu ár þéttbýlismyndunar í Hveragerði og sex rithöfunda sem settust að í Hveragerði á þeim tíma. Á útisýningunni munu fleiri listamenn bætast við.

Á degi myndlistar, laugardaginn 31. október kl. 15 verða listamennirnir Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Ólöf Helga Helgadóttir, tveir af fjórum höfundum listaverkanna á sýningunni Mörk með listamannaspjall um verkin á sýningunni. Jóna Hlíf er einnig formaður Sambands ísluenskra myndlistarmanna, SÍM, sem lagði upp með dag myndlistar (dagurmyndlistar.is). Í safninu verður einnig listi yfir opnar vinnustofur í bænum þennan dag og upplýsingar um dagskrá Bókasafnsins.

Sunnudag safnahelgarinninnar kl. 15-16 býður Listasafnið upp á notalega eftirmiðdagsstund í safninu við gítartóna Harðar Friðþjófssonar sem leikur af fingrum fram velþekkta íslenska og erlenda tónlist. Á meðan geta einstaklingar, fjölskyldan eða vinir notið sýninganna, lesið eða gluggað í gnótt listaverkabóka, skapað með pappír, litum og lími í listasmiðjurýminu eða gætt sér á úrvali gómsætra veitinga.

Listasafn Árnesinga er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18 og aðgangur er ókeypis og allir velkomnir að eiga það góðar stundir.

Listamenn í Hveragerði bjóða til opinnar vinnustofu

19 okt
19. október 2015

Kæri félagsmaður í Listvinafélaginu í Hveragerði.

Dagur myndlistar verður haldinn hátíðlegur um allt land þann 31. október 2015 en það er árlegur viðburður á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna*.

Eins og undanfarin ár hvetur Listvinafélagið í Hveragerði félaga sína til að taka þátt í Degi myndlistar og bjóða heim í opna vinnustofu. Ekkert er því til fyrirstöðu að aðrir listamenn en myndlistarmenn bjóði heim. Við fögnum fjölbreytileikanum enda tekur Listvinafélagið í Hveragerði til allra greina lista.

Við munum síðan setja tilkynningu um hvar, hverjir og klukkan hvað tekið er á móti gestum hjá hverjum og einum í frétt á heimasíðu okkar listvinir.is og á heimasíðu bæjarins auk þess sem send verður út fréttatilkynning á bæjarblöðin.

Þess má geta að Safnahelgi á Suðurlandi er þessa sömu helgi og Listvinafélagið mun opna sýningu um Listamannabæinn Hveragerði í Listasafni Árnesinga á föstudeginum 30. október kl. 17:00.

Hafi einhver ykkar áhuga á að koma fram, flytja ljóð, tónlist eða segja frá listamönnunum í Hveragerði með einhverjum hætti væri það frábært innlegg. Látið okkur vita af því fyrr en seinna.

Vinsamlegast hafið samband við Guðrúnu Tryggvadóttur formann félagsins í síma 863 5490 eða sendið henni línu á listvinir@listvinir.is fyrir þ. 23. október nk. bæði varðandi þátttöku í opnum vinnustofum og eins ef þið viljið taka þátt með atriði á opnun sýningarinnar í Listasafni Árnesinga, þ. 30. október nk.

Með listvinakveðju,

Guðrún Tryggvadóttir, formaður Listvinafélagsins í Hveragerði

 

*Félagar í SÍM (Sambandi íslenskra myndlistarmanna) geta einnig skráð opna vinnustofu á Degi myndlistar á vefnum http://dagurmyndlistar.is/)