Listamenn í Hveragerði bjóða til opinnar vinnustofu

19 okt
19. október 2015

Kæri félagsmaður í Listvinafélaginu í Hveragerði.

Dagur myndlistar verður haldinn hátíðlegur um allt land þann 31. október 2015 en það er árlegur viðburður á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna*.

Eins og undanfarin ár hvetur Listvinafélagið í Hveragerði félaga sína til að taka þátt í Degi myndlistar og bjóða heim í opna vinnustofu. Ekkert er því til fyrirstöðu að aðrir listamenn en myndlistarmenn bjóði heim. Við fögnum fjölbreytileikanum enda tekur Listvinafélagið í Hveragerði til allra greina lista.

Við munum síðan setja tilkynningu um hvar, hverjir og klukkan hvað tekið er á móti gestum hjá hverjum og einum í frétt á heimasíðu okkar listvinir.is og á heimasíðu bæjarins auk þess sem send verður út fréttatilkynning á bæjarblöðin.

Þess má geta að Safnahelgi á Suðurlandi er þessa sömu helgi og Listvinafélagið mun opna sýningu um Listamannabæinn Hveragerði í Listasafni Árnesinga á föstudeginum 30. október kl. 17:00.

Hafi einhver ykkar áhuga á að koma fram, flytja ljóð, tónlist eða segja frá listamönnunum í Hveragerði með einhverjum hætti væri það frábært innlegg. Látið okkur vita af því fyrr en seinna.

Vinsamlegast hafið samband við Guðrúnu Tryggvadóttur formann félagsins í síma 863 5490 eða sendið henni línu á listvinir@listvinir.is fyrir þ. 23. október nk. bæði varðandi þátttöku í opnum vinnustofum og eins ef þið viljið taka þátt með atriði á opnun sýningarinnar í Listasafni Árnesinga, þ. 30. október nk.

Með listvinakveðju,

Guðrún Tryggvadóttir, formaður Listvinafélagsins í Hveragerði

 

*Félagar í SÍM (Sambandi íslenskra myndlistarmanna) geta einnig skráð opna vinnustofu á Degi myndlistar á vefnum http://dagurmyndlistar.is/)

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *