Jólin koma – sýning og dagskrá í Listasafni Árnesinga

10 des
10. desember 2013

Fimmtudaginn 12. desember Kl. 17 – 18 er efnt til jóladagskrár fyrir börn á öllum aldri í tengslum við litla jólasýningu sem unnin er út frá kvæðakverinu Jólin koma og búið er að setja upp í safninu. Stekkjarstaur verður nýkominn til byggða og líklegt að hann komi við, einkum ef hann fréttir af því að þar geti hann skoðað teikningar af foreldrum sínum, sjálfum sér og átt spjall við góða gesti. Anna Jórunn Stefánsdóttir syngur jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum við lag tengdamóður sinnar, Ingunnar Bjarnadóttur og ungur afkomandi þeirra, Pétur Nói Stefánsson, bregður á leik. Hörður Friðþjófsson leikur undir á gítar. Fjallað verður um skáldið Jóhannes úr Kötlum, teiknarann Tryggva Magnússon og tónskáldið Ingunni Bjarnadóttur. Í fjöldasöng verða önnur ljóð úr kverinu sungin svo sem Jólin koma sem hefjast á ljóðlínunni Bráðum koma blessuð jólin. Boðið er upp á heitt súkkulaði og piparkökur.

Jóhannes notaði að mestu sömu nöfn á jólasveinana og séra Páll Jónsson á Myrká sjötíu árum fyrr í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Með jólasveinavísunum má segja að Jóhannes hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna, fjölda þeirra og í hvaða röð þeir halda til byggða. Tryggvi færði með teikningum sínum í kverinu, íslensku jólasveinana nær börnunum og smám saman varð til málamiðlun á milli íslensku tröllanna og ameríska jólasveinsins. Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum, sérkennum og smáhrekkjum, þó þeir hafi farið að klæðast fötum hins ameríska og gefa gjafir. Ekki er vitað hvenær Ingunn samdi lagið við jólasveinavísur Jóhannesar, en það er ekki yngra en frá árinu 1947. Ári áður hafði Ingunn flust til Hveragerðis og þá bjó þar líka Jóhannes úr Kötlum.

Föstudaginn 13. desember og helgina 14. og 15. desember má líka búast við jólasveinum hvers dags í heimsókn upp úr kl. 17. Þá munu þeir Giljagaur, Stúfur og Þvörusleikir gantast við börn og foreldra þeirra á meðan þau eiga samverustund í listasmiðju safnsins.

Jólasýningin sem sett hefur verið upp í safninu byggir á kvæðakverinu Jólin koma sem inniheldur fimm kvæði eftir Jóhannes úr Kötlum; Jólin koma, Grýlukvæði, Jólasveinarnir, Jólakötturinn og Jólabarnið. Tryggvi Magnússon vann teikningar í kverið við kvæðin. Líklega hefur engin bók á Íslandi verið jafn oft endurútgefin og þessi, en hún kom fyrst út 1932.  Sýningin er samvinnuverkefni Listasafns Árnesinga, Hveragerðisbæjar, Listvinafélags Hveragerðis og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.  Aðgangur er ókeypis bæði á sýninguna sem dagskráratriðin og eru allir velkomnir.

Þetta eru jafnframt síðustu dagarnir sem safnið er opið fyrir jól en það verður opnað á ný 15. janúar 2014.

Dagskrá um Kristján frá Djúpalæk

09 nóv
9. nóvember 2013

Laugardaginn 2. nóvember var dagskrá um Kristján frá Djúpalæk í bókasafninu í Hveragerði.
Þetta var sameiginlegt verkefni Bókasafnsins í Hveragerði og Listvinafélagsins í Hveragerði og tengist sýningu á munum úr eigu Kristjáns, sem nú stendur yfir á safninu (til 8. nóv. nk.). Muni þessa gaf sonur Kristjáns, Kristján Kristjánsson, Listvinafélagi Hveragerðis haustið 2012 í tilefni af væntanlegu skáldasafni og eru þeir varðveittir á Byggðasafni Árnesinga.

Nokkrar stúlkur úr barnakór Grunnskólans í Hveragerði sungu lög við ljóð eftir Kristján. M.a. Vögguvísu (Dvel ég í Draumahöll) úr Dýrunum í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner, ljóðið þýtt og endursamið af Kristjáni.

Aðalbjörg Bragadóttir íslenskufræðingur flutti erindi um ljóðagerð Kristjáns. (Mastersritgerð hennar).  Erindið má lesa í heild sinni hér á vefnum.

Heiðdís Gunnarsdóttir rifjaði upp minningar sínar um Kristján sem hún kallar „Eins og ég man það.“

Einar Bergmundur Arnbjörnsson las ljóð eftir Kristján. Ljóðið Myrkur úr bókinni, Fljúgandi myrkur og ljóðið Ýlir úr bókinni Sólin og ég.

Jass- og blúshljómsveit Bryndísar Ásmunds flutti nokkur lög við ljóð eftir Kristján.
Svefnljóð (lag eftir Magnús Kjartansson).
Hrafninn (lag eftir Gunnar Þórðarson).
Við sundin (lag eftir Svavar Benediktsson)
Pólstjarnan (lag eftir Ágúst Pétursson)
Dans gleðinnar (lag eftir Pálma Gunnarsson)
Aukalagið: Vor í Vaglaskógi (lag eftir Jónas Jónasson).

Sýningin á munum Kristjáns frá Djúpalæk er opin til 8. nóvember n.k.
Gestir geta einnig skoðað bækur Kristjáns og afrit af bréfum og kortum frá Ríkarði Jónssyni til Kristjáns og fjölskyldu, en frumritin eru geymd á skjalasafninu á Akureyri.

Viðburðir á Blómstrandi dögum

03 sep
3. september 2013

Listvinafélag Hveragerðis var með viðburði á þremur stöðum á Blómstrandi dögum:

Í listamannahúsinu Varmahlíð:
Þar var vefsíða félagsins <listvinir.is> kynnt á stórum sjónvarpsskjá og sérstaklega tímalínan sem segir sögu listamanna í Hveragerði frá öndverðu og fram á þennan dag.

Þá var gestum boðið í leik að orðum. Þeir spreyttu sig á að gera vísur og ljóð með því að raða saman segulmögnuðum orðum á töflu.

Framan við húsið bauð Gréta Berg listakona upp á að teikna andlitsmyndir af gestum og gangandi. Sýningin stóð í tvo daga, 17. og 18. ágúst.

Í verslunarmiðstöðinni í Sunnumörk 2:
Þar var boðið upp á sýningu félagsins „Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin“ og hefur hún nú verið flutt í nýtt rými sem er við hliðina á Bónus. – Sýningin er opin alla daga meðan húsið er opið.

Í Bókasafninu í Hveragerði:
Þar voru munir úr eigu Kristjáns frá Djúpalæk til sýnis, en Kristján var einn af „Hveragerðisskáldunum“ svokölluðu og bjó í Hveragerði 1950 – 1961. Kristján sonur hans afhenti Listvinafélagi Hveragerðis þessa muni að gjöf fyrir ári síðan.

Sýningin stendur fram í nóvember en safnið er opið föstudaga kl. 13–18.30, laugardaga kl. 11–17 og sunnudaga kl. 13–17.

Menningarstund í Listasafni Árnesinga

20 jún
20. júní 2013

Þann 30. apríl s.l. var Menningarstund í Listasafni Árnesinga. Þar var rifjuð upp saga frumkvöðla menningarlífs í Hveragerði í tali og tónum.

Svanur Jóhannesson flutti erindið „Listamannabærinn Hveragerði um miðja tuttugustu öld“ og hér getið þið heyrt það og séð.

Verkefnið var samstarfsverkefni Hveragerðisbæjar, Listvinafélags Hveragerðis og Sögufélags Árnesinga og hlaut styrk frá Menningarráði Suðurlands.

Menningarlandið 2013

21 apr
21. apríl 2013

Listvinafélagi Hveragerðis var boðið að koma með sýninguna „Listamannabæinn Hveragerði – fyrstu árin“ á ráðstefnuna Menningarlandið 2013 – framkvæmd og framtíð menningarsamninga, sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri dagana 11. – 12. apríl. Sýningin var sett upp í Skaftárstofu, þar sem ráðstefnan fór fram og hélt Guðrún Tryggvadóttir formaður félagsins erindi um sýninguna fyrir ráðstefnugesti. Var góður rómur gerður bæði að sýningunni sjálfri og vefnum Listvinir.is.
Reynslan af þessari fyrstu „útrás“ sýningarinnar,  sem hönnuð var sérstaklega til að geta farið í ferðalög um landið, gefur tilefni til að huga að fleiri ferðalögum og til að kynna söguna um listamennina í Hveragerði í öðrum landshlutum en þangað til mun sýningin vera áfram í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk.

Myndir frá ferðinni má skoða hér.