Land míns föður á Lýðveldishátíð 17. júní 1944

16 jún
16. júní 2014

Þjóðhátíðarnefnd ákvað á fundi sínum þann 14. mars 1944 að efna til samkeppni meðal skálda þjóðarinnar um hátíðarljóð. Heitið var var 5000 króna verðlaunum. Frestur til að skila ljóðum var til 20. apríl sama ár. Alls bárust kvæði frá 104 skáldum og sendu sum þeirra tvö eða fleiri kvæði eða kvæðaflokka. Kvæðin sem bárust munu því hafa verið um 120. Dómnefndin lauk störfum 27. apríl og valdi síðan úr tvö ljóð sem síðan voru flutt voru á hátíðinni og lagði til að verðlaununum yrði skipt jafnt á milli höfunda þeirra. Ljóðin tvö voru Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu sem Brynjólfur Jóhannesson leikari flutti og Íslendingaljóð (Land míns föður) eftir Jóhannes úr Kötlum.

Þegar hátíðarljóðin voru fengin, þótti Þjóðhátíðarnefnd sjálfsagt og eðlilegt, að einnig yrði efnt til samkeppni meðal tónskálda þjóðarinnar um lög við hátíðarljóðin. Nefndin vildi gera sitt til þess að fá fagurt lag við þessi ágætu ljóð og stuðla þannig að því, að ljóð og lag gætu lifað á vörum þjóðarinnar um ókomin ár, sem björt og fögur minning um þann merkisatburð í sögu Íslands, er þjóðin fengi aftur sitt fulla frelsi eftir að hafa í næstum 700 ár verið háð erlendu konungsvaldi.

Á fundi nefndarinnar 2. maí 1944 var ákveðið að efna til samkeppni meðal tónskálda þjóðarinnar um lag við hátíðarljóð þau, er verðlaun hlutu í ljóðasamkeppninni. Heitið var 5000 kr. verðlaunum fyrir lag það, er teldist þess maklegt. Frestur til að skila lögum var settur til 1. júní. – Lög bárust frá 27 höfundum. Nokkrir höfðu samið lög við bæði hátíðarljóðin, alla ljóðaflokkana, en flestir höfðu samið lag við eitt ljóðið úr ljóðaflokki Huldu, eða við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. – Dómnefndin var sammála um, að lag Emils Thoroddsens tónskálds væri best, en það var samið við 3. kaflann úr hátíðarljóðum Huldu: „Hver á sér fegra föðurland“. Tvö önnur lög taldi hún næstbest, en þau voru við hátíðarljóð Jóhannesar úr Kötlum „Land míns föður, landið mitt“ eftir Þórarinn Guðmundsson fiðluleikara og 4. kaflann úr hátíðarljóðum Huldu „Syng frjálsa land“ eftir Árna Björnsson píanóleikara.

Á Skáldasetri Jóhannesar úr Kötlum má hlusta á skáldið lesa ljóðið upp en Ríkisútvarpið tók upp flesta viðburði hátíðarinnar. Þar má einnig lesa frásögn og upplifun sonar Jóhannesar, Svans Jóhannessonar, en fjölskyldan bjó þá í Hveragerði.

Myndina af Jóhannesi að flytja ljóðið á Þingvöllum tók Óskar Gíslason.

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *