Dalablóð í Ólafsdal

29 júl
29. júlí 2016
Verið velkomin á sýningu Guðrúnar Tryggvadóttur „Dalablóð“ í Ólafsdal við Gilsfjörð en sýningin opnaði þ. 23. júlí og er opin til 14. ágúst nk. Opið er daglega frá 12:00-18:00. Þeir sem eiga leið um Vesturland á leið á Vestfirði eða Strandir eru hvattir til að kíkja á sýninguna en spottinn inn að Ólafsdal frá þjóðveginum er aðeins um 6 km. Beygt er til hægri áður en keyrt er yfir Gilsfjarðarbrúna.
Á sýningunni „Dalablóð“ fjallar Guðrún um formæður sínar í beinan kvenlegg, þær sem fæddust og bjuggu í Dalasýslu og hinar sem fluttust suður. Samtals ellefu kynslóðir. Markmið Guðrúnar er að tengjast formæðrum sínum, skapa þær með því að mála þær og gefa þeim þannig möguleika á að hittast án þess að tíminn geti skilið þær að. Leyfa þeim að horfast í augu og skoða hvað þær eiga sameiginlegt og hvað jarðneskt líf snýst raunverulega um. Afrakstur þessa tímaflakks er að sjá í sex herbergjum á 2. hæð skólahússins í Ólafsdal.
Guðrún Tryggvadóttir stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, École Nationale Supérieure des Beaux-Arts í París og Akademie der Bildenden Künste í München þaðan sem hún lauk námi í málun og grafík árið 1983 með æðstu viðurkenningu skólans. Guðrún hefur sýnt og starfað víða um heim og hlotið fjölda viðurkenninga. Hún hefur einnig látið að sér kveða á sviði nýsköpunar og náttúruverndar með margverðlaunuðum vef sínum Náttúran.is. Guðrún Tryggvadóttir hefur búið í og við Hveragerði sl. 10 ár en er nú aðeins austar, í Alviðru í Ölfusi. Hún var formaður Listvinafélagsins í Hveragerði frá 2012-2016 og hefur hannað sýningarnar um listamennina í Hveragerði. Síðastliðið ár hefur Guðrún haldið vinsæl myndlistarnámskeið í Listasafni Árnesinga undir heitinu Listrými og munu þau halda áfram og eflast á komandi hausti. Guðrún aðstoðar einnig við upphengingar sýninga í Listasafni Árnesinga þegar þess gerist þörf.

 

Nánar um sýninguna hér!

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *