Sýningin Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin

21 júl
21. júlí 2012

Sýningin „Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin“ var opnuð í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk í Hveragerði þ. 22. júní sl. Eyþór H. Ólafsson ritari félagsins var kynnir, Erla Kristín Hansen söngkona og Hörður Friðþjófsson gítarleikari fluttu tónlist, Guðrún A. Tryggvadóttir formaður félagsins ávarpaði gesti og stjórnarmenn afhjúpuðu sýninguna. Fjöldi gesta var viðstaddur og alls sóttu um 100 gestir sýninguna fyrsta daginn.

Sýningarstjórn og -hönnun var á höndum Guðrúnar A. Tryggvadóttur en stjórnin vann öll saman að gagnaöflun, textagerð, ljósmyndun, fjáröflun og öllu því sem gera þurfti. Fjöldi styrktaraðila kom að fjáröflun verkefnisins og er þeim kærlega þakkaður stuðningurinn.

Eins og fram hefur komið er hugmyndin að þróa sýninguna áfram og stækka í skrefum. Stefnt er að því að taka fyrir fleiri skáld og rithöfunda, sem og myndlistarmenn og tónskáld, og gera sýninguna meira lifandi með því að leyfa gestum sýningarinnar að taka beinan þátt, t.d. með því að lesa úr uppáhaldsbókinni sinni eða segja frá einhverju sem tengist listalífinu í Hveragerði fyrir lifandi auga sýningarinnar, myndbandsupptökuvél sem sett verður upp innan tíðar. Með því viljum við safna efni um upplifanir og minningar fólks um gildi listarinnar og miðla því síðan áfram á seinni sýningum eða viðburðum.

Hér á vefnum www.listvinir. is munum við halda áfram að koma með nýjungar til fróðleiks og leitast við að tengja Listamannabæinn Hveragerði út í samfélagið.

Stjórn Listvinafélags Hveragerðis.

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *