Ávarp formanns við opnun sýningarinnar Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin

21 júl
21. júlí 2012

Ávarp Guðrúnar Tryggvadóttur, formanns LVH.

Kæru gestir, bæjarstjóri og félagar mínir í Listvinafélagi Hveragerðis.
Það er mér mikil ánægja að fá að standa hér og opna fyrstu sýningu Listvinafélags Hveragerðis, sem við fengum inni fyrir hér á þessum fjölfarna stað í bænum, bæ sem að var ægi mikið smærri þegar listamennirnir, viðfangsefni þessarar sýningar, voru að hola sér hér niður milli þúfna og hvera á árunum eftir 1940.

Ég ætla ekki að fara að þreyta ykkur með langri sögu um tilurð sýningarinnar og ástríðuna sem liggur að baki því að Listvinafélag Hveragerðis fór út í að koma henni á legg.
Allar þær upplýsingar er að finna í textunum á sýningunni og bið ég ykkur því að lesa hann beint af sýningarveggjunum.
En til þess að ráðast í svona umfangsmikið verk þurftum við í stjórn Listvinafélagsins að undirbúa okkur vel, fyrst til að átta okkur á því hvað við vildum gera og hvernig, og eins til að afla sýningunni fjár svo að draumurinn yrði að veruleika.

Það er gleðilegt hve vel var tekið í áform okkar en það tókst næstum því að ná inn nauðsynlegu fé, en við erum auðvitað bara rétt á byrjunarreit og þurfum því á áframhaldandi stuðningi að halda, til að láta næsta draum okkar rætast en hann felst í því að taka inn fleiri listamenn, bæði listamenn orðsins, hljóðsins og myndmálsins allt fram á okkar dag og standa fyrir fleiri sýningum og viðburðum.

Við áformum að sýningin Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin standi hér í eitt ár en fari svo á flakk um landið, á menningarhátíðir, söfn og sýningar sem tengjast listum og menningu á einhvern hátt.
Svo má hugsa sér að á næstu árum verði kannski til húsnæði sem gæti hýst langtímasýningu um listamenn í Hveragerði en það er auðvitað ekki mögulegt fyrir lítið áhugamannafélag að standa eitt að slíku.

Ég vona að öllum sé ljóst af hverju sýning sem þessi skiptir máli. Hún er ekki aðeins mikilvæg fyrir nærsamfélagið, fólkið sem býr í Hveragerði og á Suðurlandi, heldur er hún mikilvæg fyrir alla landsmenn enda hafa skáldin sem þessi sýning fjallar um haft svo djúpstæð áhrif á þjóðina að þjóðin getur jafnvel ekki aðgreint sig frá orðum skáldanna. Slíka festu hafa þau í undir- og meðvitund landsmanna.
Sýningin er einnig hönnuð með það fyrir augum að erlendir ferðamenn geti fengið nokkra mynd af lífi og verkum skáldanna og menningararfinum sem hér leynist. Það opnar síðan vonandi á nýja möguleika t.d. varðandi útgáfu og gerð minjagripa fyrir Listamannabæinn Hveragerði.

Í stuttu máli er megininntak hugmyndarinnar að þessari sýningu ekki einungis að kynna skáldin við Skáldagötuna heldur að tengja þau við okkur lesendurna, af öllum kynslóðum, kynjum og gerðum þannig að við skynjum hver áhrif skáldin hafa á okkur enn þann dag í dag.
Þess vegna ljáum við lesendum hér eyra og heyrum hvað þeir hafa fram að færa um orð skáldanna. Við viljum taka þessa hugmynd enn lengra og safna mynd- og hljóðupptökum af lesendum er þeir gera grein fyrir lestri sínum og áhrifum af textum og ljóðum.

Ég vil að lokum þakka félögum mínum í stjórn listvinafélagsins, þeim Svani, Hlíf, Eyþóri, Sölva, Ingu og Heiðdísi fyrir frábæra samvinnu en það er óhætt að segja að þar sé valin maður og kona í hverju rúmi.
Ég vil líka þakka öllum okkar styrktaraðilum kærlega fyrir að vera með og þá sérstaklega sterku stoðunum okkar, Menningarráði Suðurlands og Hveragerðisbæ.

Ég segi sýninguna hér með setta og óska góðrar skemmtunar, og munið endilega að skrá ykkur í gestabókina með nafni og netfangi svo við getum látið ykkur vita af næstu viðburðum listvinafélagsins.

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *