Fréttir

Listamenn í Hveragerði bjóða heim – Safnahelgi á Suðurlandi

21 okt
21. október 2014

Listvinafélagið í Hveragerði skorar á félaga sína að opna vinnustofur og aðrar stofur á Safnahelgi á Suðurlandi sem haldin verður dagana 30. okt. – 2. nóvember 2014. Hugmyndin er að listamenn úr öllum listgreinum bjóði í upplestra heima í stofu, opni vinnustofur sínar, bílskúra o.s.frv. fyrir gestum í ákveðin tíma föstudag, laugardag eða sunnudag.

Við munum síðan setja tilkynningu um hvar, hverjir og kl. hvað tekið er á móti gestum hjá hverjum og einum í frétt á heimasíðu okkar listvinir.is, á heimasíðu bæjarins og upplýsingarnar munu einnig liggja frammi í Listasafni Árnesinga og á Bókasafninu í Hveragerði.

Ennfremur verður sagt frá opnum húsum í Hveragerði í dagskrá safnahelgarinnar á sudurland.is

Vinsamlegast hafið samband við Guðrúnu Tryggvadóttir í síma 483 1500 eða 863 5490 eða á listvinir@listvinir.is.

Vinsamlegast bregðist við sem fyrst því áætlað er að dagskráin liggi fyrir í lok vikunnar.

Safnahelgin verður opnuð í Versölum í ráðhúsi Þorlákshafnar fimmtudaginn 30. október kl. 16-18.  Allir eru velkomnir á opnunarhátíðina og í boði verða spennandi erindi um safnastarf og samfélagið, léttar veitingar og tónlistarflutningur.  Í kjölfarið verða viðburðir um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember. Hægt verður að skoða dagskrána á www.sudurland.is eða fá upplýsingar í næsta safni eða setri.

Viðburðaríkur laugardagur 27. september

26 sep
26. september 2014

Kl. 12 á hádegi verður sýningin Prentsmiðjueintök – prentsmiðjusaga Íslands opnuð á Bókasafninu í Hveragerði
Uppistaða sýningarinnar eru bækur og blöð sem Svanur Jóhannesson hefur safnað um árabil frá flestum prentsmiðjum sem verið hafa starfandi á Íslandi, einn gripur frá hverri prentsmiðju. En auk þess höfum við fengið að láni ýmsar fornbækur til að fylla upp í söguna og ná enn fleiri prentsmiðjum með. Einnig verður lítil prentvél til sýnis og gripir sem tengjast prentun.  Samhliða söfnuninni hefur Svanur tekið saman upplýsingar um prentsmiðjurnar, eigendur þeirra og um bækurnar og hefur nú gefið út á bók sem sýningargestir geta skoðað – og kannski keypt.

Við opnunina segir Svanur frá og boðið verður upp á súpu og brauð þar sem þetta er nú í hádeginu.

Bókasafnið í Hveragerði er á Facebook.

Kl. 14 verður stofnfundur Bókabæjanna austanfjalls  á sal Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Bókabæirnir eru Árborg (Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri), Hveragerði og Þorlákshöfn. Á stofnfundinum verður kynning á verkefninu, ávörp forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar, Richards Booth stofnanda fyrsta bókabæjarins í Hay-on-Wye, Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra, Kristínar Helgu Gunnarsdóttur form. Rithöfundasambands Íslands, Guðmundar Brynjólfssonar rithöfundar og Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra í Hveragerði. Einnig verða tónlistaratriði og ljóðalestur.  Fundargestir geta skráð sig sem stofnaðila bókabæjanna.

Bókabæirnir austanfjalls eru á Facebook.

Kl. 16 opna svo tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði
Listasafnið verður opið til kl. 18 svo hægt verður að ná að skoða sýningarnar þótt fundurinn á Selfossi dragist eitthvað.

Land míns föður á Lýðveldishátíð 17. júní 1944

16 jún
16. júní 2014

Þjóðhátíðarnefnd ákvað á fundi sínum þann 14. mars 1944 að efna til samkeppni meðal skálda þjóðarinnar um hátíðarljóð. Heitið var var 5000 króna verðlaunum. Frestur til að skila ljóðum var til 20. apríl sama ár. Alls bárust kvæði frá 104 skáldum og sendu sum þeirra tvö eða fleiri kvæði eða kvæðaflokka. Kvæðin sem bárust munu því hafa verið um 120. Dómnefndin lauk störfum 27. apríl og valdi síðan úr tvö ljóð sem síðan voru flutt voru á hátíðinni og lagði til að verðlaununum yrði skipt jafnt á milli höfunda þeirra. Ljóðin tvö voru Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu sem Brynjólfur Jóhannesson leikari flutti og Íslendingaljóð (Land míns föður) eftir Jóhannes úr Kötlum.

Þegar hátíðarljóðin voru fengin, þótti Þjóðhátíðarnefnd sjálfsagt og eðlilegt, að einnig yrði efnt til samkeppni meðal tónskálda þjóðarinnar um lög við hátíðarljóðin. Nefndin vildi gera sitt til þess að fá fagurt lag við þessi ágætu ljóð og stuðla þannig að því, að ljóð og lag gætu lifað á vörum þjóðarinnar um ókomin ár, sem björt og fögur minning um þann merkisatburð í sögu Íslands, er þjóðin fengi aftur sitt fulla frelsi eftir að hafa í næstum 700 ár verið háð erlendu konungsvaldi.

Á fundi nefndarinnar 2. maí 1944 var ákveðið að efna til samkeppni meðal tónskálda þjóðarinnar um lag við hátíðarljóð þau, er verðlaun hlutu í ljóðasamkeppninni. Heitið var 5000 kr. verðlaunum fyrir lag það, er teldist þess maklegt. Frestur til að skila lögum var settur til 1. júní. – Lög bárust frá 27 höfundum. Nokkrir höfðu samið lög við bæði hátíðarljóðin, alla ljóðaflokkana, en flestir höfðu samið lag við eitt ljóðið úr ljóðaflokki Huldu, eða við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. – Dómnefndin var sammála um, að lag Emils Thoroddsens tónskálds væri best, en það var samið við 3. kaflann úr hátíðarljóðum Huldu: „Hver á sér fegra föðurland“. Tvö önnur lög taldi hún næstbest, en þau voru við hátíðarljóð Jóhannesar úr Kötlum „Land míns föður, landið mitt“ eftir Þórarinn Guðmundsson fiðluleikara og 4. kaflann úr hátíðarljóðum Huldu „Syng frjálsa land“ eftir Árna Björnsson píanóleikara.

Á Skáldasetri Jóhannesar úr Kötlum má hlusta á skáldið lesa ljóðið upp en Ríkisútvarpið tók upp flesta viðburði hátíðarinnar. Þar má einnig lesa frásögn og upplifun sonar Jóhannesar, Svans Jóhannessonar, en fjölskyldan bjó þá í Hveragerði.

Myndina af Jóhannesi að flytja ljóðið á Þingvöllum tók Óskar Gíslason.

Sýningin í biðstöðu

11 apr
11. apríl 2014

Sýning okkar Listvina „Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin“ sem var síðast til sýnis í rýminu við hliðina á Bónus í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk hefur verið tekin niður þar sem rýmið hefur verið leigt út til Áfengisverslunar ríkisins.

Þar af leiðandi er sýningin heimilislaus sem stendur en unnið er að því að finna hentugt húsnæði þar sem hún gæti fengið að vera þar til tekst að koma upp áformaðri útisýningu um listamennina í Hveragerði.

Allar tillögur að bráðabirgðahúsnæði eru vel þegnar en einnig kemur til greina að sýna hana í nokkrum hlutum eða leyfa henni að ferðast á milli staða.

Stjórn Listvinafélagsins í Hveragerði.

Boðað til aðalfundar laugardaginn 15. mars

13 mar
13. mars 2014

Listvinafélag Hveragerðis boðar til aðalfundar laugardaginn 15. mars 2014, kl. 11.00 í Listasafni Árnesinga.

Fundarefni:

1. Venjuleg aðalfundarstörf skv. lögum félagsins.

Lagabreytingar: Tillögur voru sendar út með fundarboði.

a) Frá Hlíf S. Arndal.
b) Frá Svani Jóhannessyni.

Tillaga frá stjórn: Lagt er til að félagsgjald verði óbreytt kr. 2.000.

Á aðalfundi 2014 skal kjósa 2 aðalmenn og 1 varamann til tveggja ára. Þeir sem eiga að ganga úr stjórn að þessu sinni eru: Heiðdís Gunnarsdóttir og Eyþór H. Ólafsson í aðalstjórn og Hlíf S. Arndal í varastjórn.

2. Myndasýning frá listamönnunum í Hveragerði.

Listvinafélagið býður félagsmönnum upp á súpu í hádeginu.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta.

F.h. stjórnar Listvinafélags Hveragerðis.
Guðrún A. Tryggvadóttir formaður.