Fréttir

Guðrún Tryggvadóttir í Alviðru

24 sep
24. september 2015

Guðrún Tryggvadóttir heldur sýningu á nýjum verkum í hlöðunni í Alviðru. Sýningaropnun er laugardaginn 26. september kl. 14:00 og stendur sýningin til sunnudagskvöldsins 4. október.

Guðrún hefur um skeið unnið að seríu málverka um formæður sínar, tímann og endurnýjun kynslóðanna sem verða nú sýndar í fyrsta sinn.

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands aðeins 16 ára gömul og var komin í framhaldsnám til Parísar um tvítugt og til München í framhaldinu. Þar hlaut hún æðstu verðlaun skólans við útskrift árið 1983. Tveggja ára viðdvöl á Íslandi fylgdi í kjölfarið, starfslaun listamanna og einkasýning að Kjarvalsstöðum árið 1987 en síðan lá leiðin til Berlínar og síðan til Bandaríkjanna þar sem hún stundaði list sína og sýndi í virtum galleríum.

Hún átti eins árs viðdvöl á Íslandi veturinn 1992-3 og setti þá á fót myndmenntaskólann RÝMI sem naut mikilla vinsælda.

Síðan lá leiðin aftur til Þýskalands þar sem hún stofnaði listræna auglýsingastofu og gallerí Kunst & Werbung – Art & Advertising International og gat sér gott orð sem hönnuður dagblaða, útlits fyrirtækja og borgarminnisvarða svo fátt eitt sé nefnt.

Guðrún sneri síðan alkomin heim um aldamótin 2000 og vann fyrstu árin hér heima sem hönnuður fyrir Latabæ og rak síðan sína eigin auglýsingastofu Art-Ad og mótaði m.a. efni fyrir Fréttablaðið fyrstu ár þess.

Fljótlega eftir heimkomuna varð henni náttúruvernd og umhverfisfræðsla svo mikilvæg að hún hóf undirbúning að stofnun umhverfisvefsins Náttúran.is strax árið 2004, vefs sem hefur haft mikil áhrif á umhverfismeðvitund Íslendinga og unnið til fjölda viðurkenninga. Náttúran.is ryður stöðugt nýjar brautir með tækninýjungum og aðferðafræði s.s. með öppunum Húsið og umhverfið, Endurvinnslukortinu og nú síðast Grænu korti fyrir Suðurland.

Guðrún mun bjóða upp á tvö myndlistarnámskeið í Listasafni Árnesinga sem hefjast nú í október.
Nánari upplýsingar um námskeiðin, sýninguna og list Guðrúnar á http://tryggvadottir.com/
Heimsóknarbókanir fyrir hópa á sýninguna í Alviðru á gudrun@tryggvadottir.com eða í síma 863 5490.

Tímalína listamanna uppfærð

20 jún
20. júní 2015

Listvinafélagið heldur utan um tímalínu listamanna í bæjarfélaginu hér á á vefnum. Síðustu mánuði hafa hátt á fjórða tug listamanna bæst við tímalínuna og í heildina má nú fletta í gegnum myndir og upplýsingar um 113 listamenn sem eru eða hafa verið búsettir í Hveragerði, allt frá árinu 1931 fram til dagsins í dag. Lögð hefur verið áhersla á að nálgast sem bestar myndir af listamönnunum og í mörgum tilvikum fengið leyfi hjá atvinnu- og áhugaljósmyndurum, sem við viljum þakka sérstaklega fyrir. Aðrar myndir hafa verið lagaðar og unnar upp, enda margar þeirra eldri í misjöfnu ástandi, sumar verulega illa farnar.

Hugmyndir að útisýningu

15 apr
15. apríl 2015

Listvinafélagið í Hveragerði kynnir hugmyndir að útisýningu í Listasafni Árnesinga á aðalfundi félagsins sem haldinn verður sunnudaginn 19. apríl n.k. kl. 11 í Listasafni Árnesinga og eru allir velkomnir.

Kynningarsýning á hugmyndum félagsins að útisýningu um listamennina í Hveragerði sem áformað er að verði staðsett í Lystigarðinum á Fossflöt verður gestum til sýnis í safninu á opnunartíma þess frá og með 16. apríl til og með 26. apríl sem jafnframt er lokadagur sýningarinnar ÁKALLs. Á aðalfundinum verður sýningin til umfjöllunar og gefst gestum þá einnig tækifæri til þess að ræða um sýninguna við hönnuðinn og aðstandendur hennar. Samhliða kynningarsýningunni er leitað til gesta um ábendingar og hugmyndir til þess að fjármagna framkvæmd útisýningarinnar.

Einnig er vert að benda á vef félagsins listvinir.is sem hefur að geyma tímalínu um listamenn sem starfað hafa í Hveragerði. Þar er þér m.a. boðið að skrá upplifun þína eða minningar, sem tengjast verkum Hveragerðisskáldanna eða annarra listamanna í Hveragerði eða ef þú hefur frá einhverju að segja sem snertir líf þeirra og list. En tilgangur félagsins er einmitt að eiga samtal við íbúana og halda sögunni til haga fyrir komandi kynslóðir.

Nánari upplýsingar:
Guðrún Tryggvadóttir formaður Listvinafélagsins í Hveragerði og hönnuður útisýningarinnar, sími: 863 5490 , netfang: gunna@nature.is

Aðalfundur 2015

08 apr
8. apríl 2015

Aðalfundur félagsins verður haldinn sunnudaginn 19. apríl 2015, kl. 11.00 í Listasafni Árnesinga.

Fundarefni:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
Á aðalfundi 2015 skal kjósa formann til þriggja ára og 2 aðalmenn og 1 varamann til tveggja ára. Þeir sem eiga að ganga úr stjórn að þessu sinni eru: Svanur Jóhannesson og Inga Jónsdóttir í aðalstjórn og Hlíf S. Arndal í varastjórn.
Lagabreytingar hafa ekki borist til formanns að þessu sinni.
Lagt er til að félagsgjald verði óbreytt kr. 2.000.

2. Útisýning Listvina í Lystigarðinum í Hveragerði, kynning á verkefninu.

Listvinafélagið býður félagsmönnum upp á súpu í hádeginu.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta.

F.h. stjórnar Listvinafélagsins í Hveragerði.
Guðrún A. Tryggvadóttir
formaður.

Listvinafélagið í Hveragerði – Opnar vinnustofur

30 okt
30. október 2014
Safnahelgi á Suðurlandi verður opnuð í Versölum í ráðhúsi Þorlákshafnar fimmtudaginn 30. október kl. 16-18.  Allir eru velkomnir á opnunarhátíðina og í boði verða spennandi erindi um safnastarf og samfélagið, léttar veitingar og tónlistarflutningur. Í kjölfarið verða viðburðir um allt Suðurland fram til sunnudagsins 2. nóvember. Hægt er að skoða dagskrána á http://www.sudurland.is/vidburdir-sudurlandi eða fá upplýsingar í næsta safni eða setri.
Eftirtaldir félagar í Listvinafélagi Hveragerðis opna vinnustofur sínar um Safnahelgina:
Laugardaginn 1. nóvember á degi myndlistar kl. 14 – 17
Gréta Berg, myndlistarkona og hjúkrunarfræðingur.
„Lifandi vinnustofa“ að Kambahrauni 35 (v-megin við húsið)
Guðrún Tryggvadóttir, myndlistarmaður.
Vinnustofa í bílskúrnum að Breiðahvammi í Ölfusi (gult hús og gulur bílskúr)
Víðir Mýrmann, listmálari.
Vinnustofa, í Egilsstöðum, gamla barnaskólahúsinu, neðri hæð.
Laugardaginn 1. nóv. á degi myndlistar og sunnudaginn 2. nóv. kl. 13-16
Félagar í Myndlistarfélagi Árnesinga
vinnustofur í Egilsstöðum, gamla barnaskólahúsinu, efri hæð.
Sunnudaginn 2. nóv. kl. 14-17
Guðmundur Hinriksson, myndverk í Borgarhrauni 2, húsi og skúr
Listamannabærinn Hveragerði – sýningin Listvinafélagsins í Hveragerði um listamennina sem fyrstir byggðu Hveragerði eru til sýnis í afgreiðslu Sundlaugarinnar í
Laugaskarði og við matstofu Heilsustofnunar NLFÍ á opnunartímum stofnananna.