Hugmyndir að útisýningu

15 apr
15. apríl 2015

Listvinafélagið í Hveragerði kynnir hugmyndir að útisýningu í Listasafni Árnesinga á aðalfundi félagsins sem haldinn verður sunnudaginn 19. apríl n.k. kl. 11 í Listasafni Árnesinga og eru allir velkomnir.

Kynningarsýning á hugmyndum félagsins að útisýningu um listamennina í Hveragerði sem áformað er að verði staðsett í Lystigarðinum á Fossflöt verður gestum til sýnis í safninu á opnunartíma þess frá og með 16. apríl til og með 26. apríl sem jafnframt er lokadagur sýningarinnar ÁKALLs. Á aðalfundinum verður sýningin til umfjöllunar og gefst gestum þá einnig tækifæri til þess að ræða um sýninguna við hönnuðinn og aðstandendur hennar. Samhliða kynningarsýningunni er leitað til gesta um ábendingar og hugmyndir til þess að fjármagna framkvæmd útisýningarinnar.

Einnig er vert að benda á vef félagsins listvinir.is sem hefur að geyma tímalínu um listamenn sem starfað hafa í Hveragerði. Þar er þér m.a. boðið að skrá upplifun þína eða minningar, sem tengjast verkum Hveragerðisskáldanna eða annarra listamanna í Hveragerði eða ef þú hefur frá einhverju að segja sem snertir líf þeirra og list. En tilgangur félagsins er einmitt að eiga samtal við íbúana og halda sögunni til haga fyrir komandi kynslóðir.

Nánari upplýsingar:
Guðrún Tryggvadóttir formaður Listvinafélagsins í Hveragerði og hönnuður útisýningarinnar, sími: 863 5490 , netfang: gunna@nature.is

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *