Hinn slyngi sláttumaður
Ég hef alltaf hrifist mikið af ljóðum Jóhannesar úr Kötlum. Ég úthellti mörgum tárum yfir kvæðunum Stjörnufákur og Karl faðir minn, þegar ég var ung. Og sem betur fer get ég enn tárast yfir fallegum ljóðum. En þetta litla ljóð, sem ég hef valið „Hinn slyngi sláttumaður”, hittir mann einhvernveginn beint í hjartað. Hvers myndi maður fremur óska, þegar lokastundin nálgast, en að fá að sjá vorið og blómin „bara einu sinni enn”. Síðan einskis biðja framar.“
Hinn slyngi sláttumaður
Og þegar dauðinn kemur segi ég ekki:
komdu sæll þegar þú vilt
heldur segi ég:
máttu vera að því að bíða stundarkorn?
Ég bíð aldrei eftir neinum
segir hann
og heldur áfram að brýna ljáinn sinn.
Þá segi ég:
æ lof mér að lifa fram á vorið segi ég
bara ofurlítið fram á vorið
því þá koma þessi litlu blóm þú veist
sem glöddu mig svo mikið í vor eð leið
og hvernig get ég dáið án þess að fá að sjá þau
einu sinni enn
bara einu sinni enn?
Höfundur: Guðborg Aðalsteinsdóttir
Skildu eftir svar
Taktu þátt í umræðunni!