29 maí

Listamannabærinn Hveragerði

Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin
Listamennirnir sem fluttu til Hveragerðis hernámsárið 1940 og næstu árin á eftir eygðu von um betri og hagkvæmari kjör og aðbúnað en þeir lifðu við á kreppuárunum fyrir stríð. Fréttir bárust um ódýra hitun í húsum og að matseld færi jafnvel fram í hverunum sjálfum. Á þessum tíma var mikill húsnæðisskortur í Reykjavík og fjölskyldur bjuggu þröngt.
Fyrstir fluttu Jóhannes úr Kötlum með fjölskyldu sína í október 1940 og Kristmann Guðmundsson í febrúar 1941.
Báðar fjölskyldurnar höfðu misst húsnæði sitt í Reykjavík.
Um sama leyti mun Kristinn Pétursson listmálari hafa flutt, en hann bar þá von í brjósti að geta nýtt sér leirhverina til heilsubótar. Ríkarður Jónsson myndskeri byggði sér sumarbústað við Skáldagötuna sama ár og þeir Kristmann og Jóhannes.
Það var eitthvað seiðandi við það að búa í litlu friðsælu þorpi þar sem voru ræktuð blóm og grænmeti. Árið eftir flutti séra Helgi Sveinsson og fjölskylda hans í götuna hjá þeim skáldbræðrum. Þarna varð til þríeyki skálda sem hafði gaman af því að yrkja vísur um mannlífið í Hveragerði. Sumar urðu landskunnar. Samvinna þeirra og garðyrkjumanna varð að árlegum garðyrkju- og listamannaböllum.
Þremenningarnir sömdu fyrsta Hveragerðisbraginn þar sem allar vísurnar enduðu á þessum orðum: „Hveragerði er heimsins besti staður.“

Aðstæður þá og nú
Í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar voru aðstæður gjörólíkar því sem er í dag. Samgöngur og daglegt líf var þá með allt öðrum hætti. Fólk ferðaðist oftast á milli staða með strandferðaskipum og í rútubílum. Flugsamgöngur þekktust varla. Vegirnir voru malarbornir og sums staðar aðeins gerðir fyrir hestvagna. Vegurinn í Kömbum lá t.d. í ótal krókum og sums staðar þurftu rúturnar að bakka til að ná beygjunum.
Þannig var þetta þegar Jóhannes úr Kötlum flutti með fjölskyldu sína austur með hinum þekkta rútubílstjóra Ólafi Ketilssyni í október 1940.

Skáldagatan í Hveragerði
Vorið 1941 létu skáldin Jóhannes úr Kötlum og Kristmann Guðmundsson reisa sér hús í vestustu götu þorpsins sem ennþá hafði ekki hlotið nafn.
Árið eftir bættist þriðja skáldið við, séra Helgi Sveinsson, en eftir það var farið að kalla götuna Skáldagötu.
Það var ekki fyrr en 1946 að götunum í þessu nýja hverfi voru gefin nöfn og hlaut Skáldagatan nafnið Frumskógar. Þá voru skáldin Gunnar Benediktsson og Valdís Halldórsdóttir komin í hópinn og Gunnar orðinn oddviti í forföllum Helga Geirssonar.
Að sögn Gunnars var gatan í mörg ár „ekki vottur af götu að öðru leyti en því, að húsalínur voru að nokkru leyti beinar í gegnum þrælþýfðan móa“.
Samvinna listamannanna var mikil. Þeir létu bora eftir hita í götunni, leiddu í hús sín og settu upp hitakassa á leiðslurnar fyrir matseld.

Garðshorn

Garðshorn við Skáldagötu – nú Frumskógar 9
Kristmann Guðmundsson varð húsnæðislaus í Reykjavík snemma árs 1941 og flutti þá til Hveragerðis ásamt fimmtu konu sinni, Guðrúnu Guðjónsdóttur. Hann byggði sér húsið Garðshorn við Skáldagötuna og kom þar upp fágætum skrúðgarði. Kristmann kvæntist níu sinnum og skildi jafnoft. Hann eignaðist sex dætur, þær Randí, Vildísi, Hrefnu, Ninju, Ingilín og Kaðlín.
Kristmann var ásamt Gunnari Benediktssyni og fleirum baráttumaður fyrir því að Hveragerði yrði sjálfstætt hreppsfélag. Hann tók jafnframt þátt í borun fyrstu borholunnar sem notuð var til húshitunar í Hveragerði. Hann flutti til Reykjavíkur 1960.

Ljósafell

Ljósafell við Skáldagötunú Frumskógar 7
Séra Helgi Sveinsson þjónaði Arnarbælisprestakalli og bjó í Arnarbæli ásamt konu sinni Katrínu M. Guðmundsdóttur og syni þeirra Hauki. Húsakynni þar voru í lélegu ástandi og fásinni nokkuð. Þau fluttu því til Hveragerðis 1942 og byggðu sér húsið Ljósafell við Skáldagötuna og þar fæddist dóttirin María Katrín. Mikil og góð samskipti urðu milli fjölskyldnanna í götunni og Katrín og Hróðný kona Jóhannesar urðu vinkonur ævilangt. Helgi og Jóhannes ortu saman alla Hveragerðisbragina en þann fyrsta ásamt Kristmanni. Séra Helgi lést af slysförum í Kaupmannahöfn árið 1964.

Vin

Vin við Skáldagötu – nú Frumskógar 5
Gunnar Benediktsson og Valdís Halldórsdóttir áttu heima á Eyrarbakka og höfðu bæði verið kennarar þar. Valdís fór í barneignarfrí og Gunnar að vinna sem túlkur hjá Bretanum í Kaldaðarnesi. Fékk síðan vinnu hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík og þurfti oft að komast til höfuðstaðarins. Mikill tími fór því í ferðalög. Þau leituðu til Jóhannesar úr Kötlum, sem bjó í Hveragerði, og hann útvegaði þeim leiguhúsnæði í Friðsteinshúsi við Bláskóga haustið 1943. Síðan keyptu þau hús í Frumskógum 1944. Börn þeirra eru Heiðdís fædd 1943 og Halldór fæddur 1950. Þau fluttust til Reykjavíkur 1975.

Miðsel

Miðsel við Skáldagötu – nú Frumskógar 10
Jóhannes úr Kötlum og kona hans Hróðný Einarsdóttir urðu húsnæðislaus í Reykjavík haustið 1940. Þá fluttu þau til Hveragerðis ásamt börnum sínum Svani ellefu ára og Ingu Dóru þriggja vikna. Þau leigðu fyrst Friðsteinshús, sem var nýbyggður og óupphitaður sumarbústaður, en árið eftir reistu þau sér húsið Miðsel við nýja götu vestast í þorpinu sem síðar var nefnd Skáldagata. Um svipað leyti lét Kristmann Guðmundsson byggja sér hús hinum megin götunnar og urðu samskipti strax töluverð á milli fjölskyldnanna. Jóhannes og Hróðný dvöldust í Svíþjóð, ásamt dóttur sinni, í eitt ár 1946–47, en byggðu sér síðan hús við Bröttuhlíð 9 í Hveragerði og þar fæddist dóttirin Þóra 1948. Þau fluttust til Reykjavíkur 1959.

Bræðraborg

Bræðraborg við Skáldagötu – nú Frumskógar 6
Kristján frá Djúpalæk fluttist til Hveragerðis vorið 1950 með konu sinni, Unni Friðbjarnardóttur. Unnur hafði þá verið við rúmið í þrjú ár með berkla í baki og Kristján, einnig bakveikur, að ná sér eftir aðgerð vegna brjóskeyðingar. Spurnir af lækningamætti hveraleirsins og ódýru húsnæði drógu þau til Hveragerðis og ekki spillti nálægðin við skáldin sem fyrir voru. Jóhannes úr Kötlum hjálpaði þeim að finna húsnæði og bjuggu þau í húsinu Bræðraborg í Skáldagötunni til 1961 að þau fluttu til Akureyrar. Sonur þeirra, Kristján, fæddist árið 1959.