Dómar heimsins
Dómar heimsins dóttir góð
munu reynast margvíslegir.
Glímdu sjálf við sannleikann
hvað sem hver segir.
Gakktu einatt eigin slóð
hálir eru hversmannsvegir.
Skeyttu ekki um boð né bann
hvað sem hver segir.
Inn í brjóst þitt ein og hljóð
rýndu fast ef röddin þegir.
Treystu á þinn innri mann
Hvað sem hver segir.
Þegar ég varð stúdent gaf mamma mín mér þessar vísur eftir Jóhannes úr Kötlum skrautskrifaðar í ramma. Æ síðan hafa þær hangið uppi á vegg á heimili mínu og verið mér hvatning og innblástur, og eftir að ég eignaðist sjálf dóttur hef ég einnig bent henni á vísurnar. Þá hefur Valgeir Guðjónsson samið lag við vísurnar sem líka er gaman að syngja og hlusta á flutt. Ekki grunaði mig á stúdentsdaginn að ég ætti eftir að flytja í Hveragerði eins og skáldið sem orti vísurnar, en svona hefur lífið tilhneigingu til að koma manni á óvart. Eitt af því sem heillaði mig þegar ég flutti til Hveragerðis var einmitt saga bæjarins sem bær listamanna gegnum áratugina og mér fannst gaman að fara út að ganga með barnavagn og skoða söguskilti og gömul hús merkt listaskáldunum sem hér bjuggu. Síðan hefur verið gert enn betur í því að kynna sögu bæjarins sem listamannabæjar og þar fer Listvinafélagið fremst í flokki. Það er þakkarvert.
Ekki þykir mér síst mikilvægt að halda til haga sögu og framlagi kvennanna sem hér bjuggu, eins og t.d. Valdísar Halldórsdóttur og Ingunnar Bjarnadóttur. Á þeim tímum þótti það fremur óvenjulegt að konur stunduðu listir og talið þarfara að þær einbeittu sér að einhverju öðru eins og börnum og heimili. Þær hafa eflaust stundum þurft að fara eftir því sem segir í vísunum hér að ofan: „Gakktu einatt eigin slóð…“
Höfundur: Ninna Sif Svavarsdóttir