Fréttir

Dagskrá Listvinafélagsins frestað vegna veðurs

02 nóv
2. nóvember 2012

Dagskrá á vegum Listvinafélags Hveragerðis sem hefjast átti kl. 13.00 á morgun, laugardag 3. nóvember, í Listasafni Árnesinga, hefur verið frestað um viku vegna óveðursins sem gengur nú yfir landið. Dagskráin verður haldin á sama tíma að viku liðinni, laugardaginn 10. nóvember næstkomandi.

Opin hús verða haldin þrátt fyrir slæma spá
Tímasetning á Opnum húsum listamanna í Hveragerði sem átti að halda 3. og 4. nóvember mun halda sér fyrir utan opið hús hjá Björgu Einarsdóttur sem færist yfir á sunnudag, 4. nóvember, frá kl. 14.00–17.00.

Við bjóðum þér og þínum!

27 okt
27. október 2012

Listvinafélag Hveragerðis býður þér og þínum á:
Dagskrá með kynningu og formlegri opnun vefsins LISTVINIR.IS í listasafni Árnesinga laugardaginn 3. nóv. kl. 13.00–14.00.

Sýninguna Listamannabærinn Hveragerði í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk.
Opið hús listamanna í bænum 3.–4 nóv.
Sjá nánar í dagskrá Safnahelgar á Suðurlandi.

Listvinafélag Hveragerðis tekur þátt í Safnadögum á Suðurlandi með myndarlegum hætti á fyrsta starfsári sínu.

Laugardaginn 3. nóvember – Kynningardagskrá í Listasafni Árnesinga

Dagskráin hefst kl. 13:00 og stendur í klukkustund.

1. Guðrún A. Tryggvdóttir formaður kynnir félagið og sýninguna Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin.
2. Svanur Jóhannesson og Heiðdís Gunnarsdóttir opna nýjan vef félagsins.
3. Páll Svansson vefhönnuður kynnir vefinn og tímalínu með upplýsingum um listamenn í Hveragerði fyrr og nú.
4. Anna Margrét Stefánsdóttir les úr bók sinni Engillinn minn.
5. Magnús Þór Sigmundsson flytur nokkur af lögum sínum.
Fundarstjóri er Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Boðið á sýninguna Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin, fyrir framan Bókasafnið í Hveragerði, í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk.

Opin hús listamanna í Hveragerði
3. nóv. 14:00-17:00. Lækjarbrún 18, Hveragerði: Björg Einarsdóttir les úr eigin verkum frá ýmsum tímum.
3. og 4. nóv. 13:00-17:00. Bjarkarheiði 12 Hveragerði: Jóhann Gunnarsson býður fólki að koma og fylgjast með smíða íhluti í lítið pípuorgel sem hann hefur unnið að um nokkurt skeið.
3. og 4. nóv. 13:00-17:00. Kambahraun 35, Hveragerði: Gréta Berg Th. Bergsveinsdóttir býður fólki að koma og skoða steina og olíumálverk koma og skoða steina og olíumálverk sem hún vinnur út frá myndformum steinanna.
3. og 4. nóv. 13:00-16:00. Þorkelsgerði í Selvogi (ath. utan Hveragerðis). Sigurbjörg Eyjólfsdóttir verður með opið hús í galleríi sínu þar sem hún sýnir hvernig hægt er að mála á allt.
4. nóv. 13:00-17:00. Bjarkarheiði 19, Hveragerði: Anna Jórunn Stefánsdóttir fæst við óvenjulega handavinnu sem hún mun sýna gestum. Hún orkerar, fílerar, gimbar og kniplar auk þess að hekla bæði keðjuhekl og rússneskt hekl.

Listamenn í Hveragerði bjóða heim

10 okt
10. október 2012

Til félaga í Listvinafélagi Hveragerðis
Listvinafélag Hveragerðis skorar á félaga sína að opna vinnustofur og aðrar stofur á Safnahelgi á Suðurlandi sem haldin verður dagana 3. – 4. nóvember 2012. Hugmyndin er að listamenn úr öllum listgreinum bjóði í upplestra heim í stofu, í heimsókn á vinnustofur eða bílskúra o.s.fr. Stefnt er á að halda fund með áhugasömum félögum um hvernig við myndum útfæra okkar heimboð á Safnahelgi þannig að sameiginlegur þráður fyndist og heimboðin fengju pláss og athygli í dagskrá Safnahelgar á Suðurlandi og víðar. Við stefnum að því að vera búin að ákveða fyrirkomulagið 10. okt.

Sýningin Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin

21 júl
21. júlí 2012

Sýningin „Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin“ var opnuð í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk í Hveragerði þ. 22. júní sl. Eyþór H. Ólafsson ritari félagsins var kynnir, Erla Kristín Hansen söngkona og Hörður Friðþjófsson gítarleikari fluttu tónlist, Guðrún A. Tryggvadóttir formaður félagsins ávarpaði gesti og stjórnarmenn afhjúpuðu sýninguna. Fjöldi gesta var viðstaddur og alls sóttu um 100 gestir sýninguna fyrsta daginn.

Sýningarstjórn og -hönnun var á höndum Guðrúnar A. Tryggvadóttur en stjórnin vann öll saman að gagnaöflun, textagerð, ljósmyndun, fjáröflun og öllu því sem gera þurfti. Fjöldi styrktaraðila kom að fjáröflun verkefnisins og er þeim kærlega þakkaður stuðningurinn.

Eins og fram hefur komið er hugmyndin að þróa sýninguna áfram og stækka í skrefum. Stefnt er að því að taka fyrir fleiri skáld og rithöfunda, sem og myndlistarmenn og tónskáld, og gera sýninguna meira lifandi með því að leyfa gestum sýningarinnar að taka beinan þátt, t.d. með því að lesa úr uppáhaldsbókinni sinni eða segja frá einhverju sem tengist listalífinu í Hveragerði fyrir lifandi auga sýningarinnar, myndbandsupptökuvél sem sett verður upp innan tíðar. Með því viljum við safna efni um upplifanir og minningar fólks um gildi listarinnar og miðla því síðan áfram á seinni sýningum eða viðburðum.

Hér á vefnum www.listvinir. is munum við halda áfram að koma með nýjungar til fróðleiks og leitast við að tengja Listamannabæinn Hveragerði út í samfélagið.

Stjórn Listvinafélags Hveragerðis.

Ávarp formanns við opnun sýningarinnar Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin

21 júl
21. júlí 2012

Ávarp Guðrúnar Tryggvadóttur, formanns LVH.

Kæru gestir, bæjarstjóri og félagar mínir í Listvinafélagi Hveragerðis.
Það er mér mikil ánægja að fá að standa hér og opna fyrstu sýningu Listvinafélags Hveragerðis, sem við fengum inni fyrir hér á þessum fjölfarna stað í bænum, bæ sem að var ægi mikið smærri þegar listamennirnir, viðfangsefni þessarar sýningar, voru að hola sér hér niður milli þúfna og hvera á árunum eftir 1940.

Ég ætla ekki að fara að þreyta ykkur með langri sögu um tilurð sýningarinnar og ástríðuna sem liggur að baki því að Listvinafélag Hveragerðis fór út í að koma henni á legg.
Allar þær upplýsingar er að finna í textunum á sýningunni og bið ég ykkur því að lesa hann beint af sýningarveggjunum.
En til þess að ráðast í svona umfangsmikið verk þurftum við í stjórn Listvinafélagsins að undirbúa okkur vel, fyrst til að átta okkur á því hvað við vildum gera og hvernig, og eins til að afla sýningunni fjár svo að draumurinn yrði að veruleika.

Það er gleðilegt hve vel var tekið í áform okkar en það tókst næstum því að ná inn nauðsynlegu fé, en við erum auðvitað bara rétt á byrjunarreit og þurfum því á áframhaldandi stuðningi að halda, til að láta næsta draum okkar rætast en hann felst í því að taka inn fleiri listamenn, bæði listamenn orðsins, hljóðsins og myndmálsins allt fram á okkar dag og standa fyrir fleiri sýningum og viðburðum.

Við áformum að sýningin Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin standi hér í eitt ár en fari svo á flakk um landið, á menningarhátíðir, söfn og sýningar sem tengjast listum og menningu á einhvern hátt.
Svo má hugsa sér að á næstu árum verði kannski til húsnæði sem gæti hýst langtímasýningu um listamenn í Hveragerði en það er auðvitað ekki mögulegt fyrir lítið áhugamannafélag að standa eitt að slíku.

Ég vona að öllum sé ljóst af hverju sýning sem þessi skiptir máli. Hún er ekki aðeins mikilvæg fyrir nærsamfélagið, fólkið sem býr í Hveragerði og á Suðurlandi, heldur er hún mikilvæg fyrir alla landsmenn enda hafa skáldin sem þessi sýning fjallar um haft svo djúpstæð áhrif á þjóðina að þjóðin getur jafnvel ekki aðgreint sig frá orðum skáldanna. Slíka festu hafa þau í undir- og meðvitund landsmanna.
Sýningin er einnig hönnuð með það fyrir augum að erlendir ferðamenn geti fengið nokkra mynd af lífi og verkum skáldanna og menningararfinum sem hér leynist. Það opnar síðan vonandi á nýja möguleika t.d. varðandi útgáfu og gerð minjagripa fyrir Listamannabæinn Hveragerði.

Í stuttu máli er megininntak hugmyndarinnar að þessari sýningu ekki einungis að kynna skáldin við Skáldagötuna heldur að tengja þau við okkur lesendurna, af öllum kynslóðum, kynjum og gerðum þannig að við skynjum hver áhrif skáldin hafa á okkur enn þann dag í dag.
Þess vegna ljáum við lesendum hér eyra og heyrum hvað þeir hafa fram að færa um orð skáldanna. Við viljum taka þessa hugmynd enn lengra og safna mynd- og hljóðupptökum af lesendum er þeir gera grein fyrir lestri sínum og áhrifum af textum og ljóðum.

Ég vil að lokum þakka félögum mínum í stjórn listvinafélagsins, þeim Svani, Hlíf, Eyþóri, Sölva, Ingu og Heiðdísi fyrir frábæra samvinnu en það er óhætt að segja að þar sé valin maður og kona í hverju rúmi.
Ég vil líka þakka öllum okkar styrktaraðilum kærlega fyrir að vera með og þá sérstaklega sterku stoðunum okkar, Menningarráði Suðurlands og Hveragerðisbæ.

Ég segi sýninguna hér með setta og óska góðrar skemmtunar, og munið endilega að skrá ykkur í gestabókina með nafni og netfangi svo við getum látið ykkur vita af næstu viðburðum listvinafélagsins.