Viðburðir á Blómstrandi dögum

03 sep
3. september 2013

Listvinafélag Hveragerðis var með viðburði á þremur stöðum á Blómstrandi dögum:

Í listamannahúsinu Varmahlíð:
Þar var vefsíða félagsins <listvinir.is> kynnt á stórum sjónvarpsskjá og sérstaklega tímalínan sem segir sögu listamanna í Hveragerði frá öndverðu og fram á þennan dag.

Þá var gestum boðið í leik að orðum. Þeir spreyttu sig á að gera vísur og ljóð með því að raða saman segulmögnuðum orðum á töflu.

Framan við húsið bauð Gréta Berg listakona upp á að teikna andlitsmyndir af gestum og gangandi. Sýningin stóð í tvo daga, 17. og 18. ágúst.

Í verslunarmiðstöðinni í Sunnumörk 2:
Þar var boðið upp á sýningu félagsins „Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin“ og hefur hún nú verið flutt í nýtt rými sem er við hliðina á Bónus. – Sýningin er opin alla daga meðan húsið er opið.

Í Bókasafninu í Hveragerði:
Þar voru munir úr eigu Kristjáns frá Djúpalæk til sýnis, en Kristján var einn af „Hveragerðisskáldunum“ svokölluðu og bjó í Hveragerði 1950 – 1961. Kristján sonur hans afhenti Listvinafélagi Hveragerðis þessa muni að gjöf fyrir ári síðan.

Sýningin stendur fram í nóvember en safnið er opið föstudaga kl. 13–18.30, laugardaga kl. 11–17 og sunnudaga kl. 13–17.