Opin hús á Suðurlandi

17 nóv
17. nóvember 2012

Dagana 2. til 4. nóvember 2012 var haldin svokölluð „Safnahelgi á Suðurlandi“ og náði yfir svæðið austan frá Hornafirði og vestur til Selvogs; hvarvetna virtist áhugi ríkjandi ef marka má tilkynningar í héraðs- og fréttablöðum.
Í sveitarfélaginu Hveragerði voru það einkum þrír aðilar sem létu málefnið til sín taka: Listasafn Árnesinga, Bókasafn Hveragerðis og hið nýendurreista Listvinafélag Hveragerðis. Stjórn þess síðastnefnda lét boð út ganga til félagsmanna sinna hvort einhverjir þeirra hefðu ástæður til þess að halda svokallað „Opið hús“ og hafa þar frammi við eitthvað af því sem þeir fengjust við. Af tæplega 60 félagsmönnum gáfu eftirtaldir fimm sig í ljós og var eftirfarandi dagskrá auglýst þessa helgi:
Bjarkarheiði 19 – Anna Jórunn Stefánsdóttir: óvenjuleg handavinna (knippling/orkering) 4. nóv. 13:00-17:00.
Lækjarbrún 18 – Björg Einarsdóttir: upplestur úr eigin verkum og umræður. 3. nóv. 14:00-17:00.
Kambahraun 35 – Gréta Berg Th. Bergsveinsdóttir: olíumálverk, lifandi steinar. 3. og 4. nóv. 13:00-17:00.
Bjarkarheiði 12 – Jóhann Gunnarsson: smíði pípuorgels. 3. og 4. nóv. 13:00-17:00.
Listhús Þorkelsgerði í Selvogi – Sigurbjörg Eyjólfsdóttir: málað á allt. 3. og 4. nóv. 13:00-16:00.
Þar er til að taka að ofstopa veður gerði dagana 2. og 3. nóv. og varð að fresta sumum viðburðum alveg til 4. nóv. er veðrið hafði gengið niður og fólk komst með góðu móti milli húsa. Margir fóru stað úr stað og nutu þess að sjá og heyra hvað þessir félagsmenn í Listvinafélaginu höfðu með höndum. Aðsókn hjá flestum var að milli 20 og 30 manns komu í opnu húsin, nema eitthvað færra í Þorkelsgerði og galt vafalaust fjarlægðarinnar frá þéttbýlinu.
Á heildina litið má segja að þessi tilraun hjá Listvinafélagi Hveragerðis með
„Opin hús“ hafi gefið góða raun og bæjarbúar hafi sýnt framtakinu verulegan áhuga.  – Björg Einarsdóttir

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *