Hveragerðisskáldin í heimsókn á Klaustri

10 apr
10. apríl 2013

Listvinafélagi Hveragerðis var boðið að koma með sýninguna „Listamannabæinn Hveragerði – fyrstu árin“ á ráðstefnuna Menningarlandið 2013 – framkvæmd og framtíð menningarsamninga, sem haldin er á Kirkjubæjarklaustri dagana 11. – 12. apríl.

Að ráðstefnunni standa; Mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, og Menningarráð Suðurlands í samstarfi við önnur menningarráð landsbyggðarinnar.

Sjá nánar um ráðstefnuna hér

Boð til aðalfundar

01 mar
1. mars 2013

Listvinafélag Hveragerðis boðar til aðalfundar laugardaginn 16. mars 2013, kl. 11.00 í Listasafni Árnesinga.

Fundarefni:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

Á aðalfundi 2013 skal kjósa 2 aðalmenn og 1 varamann til tveggja ára.

Þeir sem eiga að ganga úr stjórn að þessu sinni eru: Svanur Jóhannesson og Inga Jónsdóttir í aðalstjórn og Sölvi Ragnarsson í varastjórn.

Tillögur um lagabreytingar berist til formanns, listvinir@listvinir.is eða skriflega að Breiðahvammi, 816 Ölfusi fyrir kl. 16:00 sunnudaginn 10. mars 2013.

Tillaga frá stjórn: Stjórn Listvinafélags Hveragerðis leggur til að árgjald félagsins verði 2000 kr.

2. Lyst og list: súpuhlé og listræn dagskrá 

Listvinafélagið býður félagsmönnum upp á súpu í hádeginu.

Tvær nýjar sýningar standa nú yfir í Listasafni Árnesinga:

  • Til sjávar og sveita – verk eftir Gunnlaug Scheving og
  • Slangur – verk eftir Söru Riel.

Inga Jónsdóttir safnstjóri segir frá sýningunum og býður gestum upp á leik.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta.

Stjórnin

Lög Listvinafélags Hveragerðis

Jólin koma – Jólasýning Landsbókasafns

09 des
9. desember 2012

Jólasýning Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns var opnuð nú í byrjun desember en tilefni sýningarinnar er 80 ára útgáfuafmæli kvæðakversins Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Sýningin er haldin í samstarfi við Forlagið sem gefur kverið út í sérstakri hátíðarútgáfu af þessu tilefni. Sýningin stendur fram á þrettándann 2013.

Árið 1932 kom út kvæðakver Jóhannesar úr Kötlum, Jólin koma, með vísum um íslenskar jólavættir. Tryggvi Magnússon myndskreytti bókina, en hann var þá þekktasti teiknari landsins. Bókin er nú sem fyrr ein vinsælasta ljóðabók Íslendinga í desembermánuði og trónir alla jafna í fyrsta sæti sölulista bókabúðanna í sínum flokki.

Bókin kom út á tíma sjálfstæðisbaráttunnar þegar þjóðararfurinn gekk í endurnýjun lífdaga. Þjóðsagnaminni voru færð nær þjóðinni og um leið mörkuð sérstaða íslenskrar menningar.

Á fyrri hluta 20. aldar var litið á íslensku jólasveinana sem tröll en jólasveinar Tryggva minna frekar á bændur. Þeir eru í eðlilegri stærð og klæðaburður þeirra þótti kunnuglegur. Þannig færði Tryggvi íslensku jólasveinana nær börnunum og jafnframt varð smám saman til málamiðlun á milli íslensku tröllanna og ameríska jóla­sveinsins.

Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum. Aftur á móti fóru þeir smám saman að klæðast sömu fötum og sá ameríski og gefa gjafir jafnframt því að halda sínum séreinkennum og hrekkjum.

Jóhannes úr Kötlum notaði að mestu sömu nöfn á sveinana og séra Páll Jónsson á Myrká (1812-1889) sjötíu árum fyrr í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar.
Með þessu kvæði sínu má segja að Jóhannes hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna, fjölda þeirra og í hvaða röð þeir halda til byggða.

Landsbókasafn eignaðist árið 1989 frumeintök teikninganna í Jólin koma og er útgáfa Forlagsins í ár byggð á þeim myndum.

Myndir: Helgi Bragason/Landsbókasafn Íslands

Opin hús á Suðurlandi

17 nóv
17. nóvember 2012

Dagana 2. til 4. nóvember 2012 var haldin svokölluð „Safnahelgi á Suðurlandi“ og náði yfir svæðið austan frá Hornafirði og vestur til Selvogs; hvarvetna virtist áhugi ríkjandi ef marka má tilkynningar í héraðs- og fréttablöðum.
Í sveitarfélaginu Hveragerði voru það einkum þrír aðilar sem létu málefnið til sín taka: Listasafn Árnesinga, Bókasafn Hveragerðis og hið nýendurreista Listvinafélag Hveragerðis. Stjórn þess síðastnefnda lét boð út ganga til félagsmanna sinna hvort einhverjir þeirra hefðu ástæður til þess að halda svokallað „Opið hús“ og hafa þar frammi við eitthvað af því sem þeir fengjust við. Af tæplega 60 félagsmönnum gáfu eftirtaldir fimm sig í ljós og var eftirfarandi dagskrá auglýst þessa helgi:
Bjarkarheiði 19 – Anna Jórunn Stefánsdóttir: óvenjuleg handavinna (knippling/orkering) 4. nóv. 13:00-17:00.
Lækjarbrún 18 – Björg Einarsdóttir: upplestur úr eigin verkum og umræður. 3. nóv. 14:00-17:00.
Kambahraun 35 – Gréta Berg Th. Bergsveinsdóttir: olíumálverk, lifandi steinar. 3. og 4. nóv. 13:00-17:00.
Bjarkarheiði 12 – Jóhann Gunnarsson: smíði pípuorgels. 3. og 4. nóv. 13:00-17:00.
Listhús Þorkelsgerði í Selvogi – Sigurbjörg Eyjólfsdóttir: málað á allt. 3. og 4. nóv. 13:00-16:00.
Þar er til að taka að ofstopa veður gerði dagana 2. og 3. nóv. og varð að fresta sumum viðburðum alveg til 4. nóv. er veðrið hafði gengið niður og fólk komst með góðu móti milli húsa. Margir fóru stað úr stað og nutu þess að sjá og heyra hvað þessir félagsmenn í Listvinafélaginu höfðu með höndum. Aðsókn hjá flestum var að milli 20 og 30 manns komu í opnu húsin, nema eitthvað færra í Þorkelsgerði og galt vafalaust fjarlægðarinnar frá þéttbýlinu.
Á heildina litið má segja að þessi tilraun hjá Listvinafélagi Hveragerðis með
„Opin hús“ hafi gefið góða raun og bæjarbúar hafi sýnt framtakinu verulegan áhuga.  – Björg Einarsdóttir

Myndir frá kynningu Listvinafélagsins

11 nóv
11. nóvember 2012

Myndir eftir Einar Bergmund frá kynningu Listvinafélags Hveragerðis 10. nóvember 2012.