Mýrmann með sýningu í Gallerí Fold

17 maí
17. maí 2016

Nú stendur yfir sýning Hvergerðingsins og listamannsins Mýrmanns sem ber heitið Constructive/Uppbyggilegt í Gallerí Fold á Rauðarárstíg. Mýrmann heitir réttu nafni Víðir Ingólfur Þrastarson og er þetta 17. einkasýning hans en hann hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Mýrmann hefur lagt stund á myndlist frá unga aldri. Hann á einnig hönnunarnám að baki en lærði svo hjá listmálaranum Odd Nerdrum í Noregi árið 2011.
Á sýningunni eru 11 stór og kraftmikil olíuverk og Mýrmann segir að hann líti svo á að þetta séu allt landslagsverk. Þau birta þó tvo ólíka heima sem mynda andstæður. Annars vegar eru það kröftugar myndir af ósnortinni náttúru Íslands og svo myndir af borgarlandslagi.
Sýningin stendur til 30. maí.

Látinn félagi

04 maí
4. maí 2016

Vildís Kristmannsdóttir
Vildís Kristmannsdóttir Gudmundsson fæddist í Kaupmannahöfn 14. september 1938. Hún lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 21. apríl 2016.
vildisVildís var dóttir hjónanna Kristmanns Guðmundssonar rithöfundar, f. 23. október 1901, d. 20. nóvember 1983, og Ingibjargar Guðmundsdóttur, húsfreyju og saumakonu, f. 8. mars 1916, d. 9. september 1968. Systur hennar voru, samfeðra: Randý, f. 26. september 1926, d. 17. október 1985, húsmóðir í Noregi, Hrefna, f. 20. maí 1944, prófessor emeritus, Ninja, f. 17. september 1950, paralegal í Bandaríkjunum, Ingilín, f. 30. apríl 1973, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Kaðlín, f. 2. febrúar 1976, verslunareigandi. Bróðir Vildísar sammæðra er Óðinn Geirsson, f. 7. janúar 1943, framkvæmdastjóri. Vildís giftist 17. nóvember 1956 eftirlifandi eiginmanni sínum Árna Edwins, fyrrverandi framkvæmdastjóra, f. 23. desember 1933.

Vildís ólst upp í Reykjavík hjá móður sinni en dvaldi langdvölum hjá föður sínum í Hveragerði á uppvaxtarárunum. Undirritaður man vel eftir henni þar á þeim árum í Skáldagötunni, þeirri frægu götu í þorpinu okkar, Hveragerði, en heimili okkar voru sitt hvorum megin götunnar og þónokkur samgangur var þar á milli. Vildís kom oft í heimsókn til pabba síns og ljómaði alltaf af ánægju þegar hún sá hann en þau voru mjög samrýnd.  Það var einmitt á þessum árum sem hinn frægi skrúðgarður Kristmanns var í uppbyggingu og Vildís hafði mjög gaman af að leika sér þar og skoða hinar ýmsu jurtir sem pabbi hennar gróðursetti.  Tjörnin, blómin og  fallegu steinarnir úr Varmá voru hennar dýrðarheimur sem hún lifði sig vel inn í og kunni að meta. Það er dýrmætt fyrir barn að hafa átt slíka æskudaga. Þarna ólst hún líka upp með eldri systur sinni Randý, sem var þá nær fulltíða og var henni mikil stoð og stytta.

Vildís var félagi í Listvinafélaginu í Hveragerði og búin að vera það frá stofnun. Hún studdi það með þátttöku sinni og fjárframlagi á sínum tíma eins og önnur skáldabörn.

Við minnumst Vildísar með virðingu og sendum fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.

Svanur Jóhannesson

Ný stjórn Listvinafélagsins

04 maí
4. maí 2016

Ný stjórn Listvinafélagsins í Hveragerði var kjörin þann 30. apríl 2016. Gísli Páll Pálsson var kjörinn formaður og stjórnin skipti síðan með sér verkum: Inga Jónsdóttir varaformaður, Svanur Jóhannesson gjaldkeri, Njörður Sigurðsson ritari, Guðrún Tryggvadóttir meðstjórnandi og Hlíf Arndal og Sæunn Freydís Grímsdóttir eru varamenn í stjórn.

Fundargerðir aðalfunda má finna hér.

Uppfært: 19. september 2016: Breytingar hafa orðið á stjórn Listvinafélagsins. Á fundi stjórnar 30. ágúst sl. tók varaformaður Inga Jónsdóttir við sem formaður, en Gísli sagði sig úr stjórn. Hlíf Arndal kom inn sem aðalmaður.  Fullskipað verður í stjórn á næsta aðalfundi. Stjórnin þakkar Gísla góð störf fyrir félagið.

Boð til aðalfundar

06 mar
6. mars 2016

Kæri félagi í Listvinafélaginu í Hveragerði.

Aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 22. mars 2016, kl. 18.00 í Listasafni Árnesinga, Austurmörk 21 í Hveragerði.
Boðið verður upp á súpu og brauð.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf skv. samþykktum félagsins.

Tillögur um lagabreytingar hafa ekki borist til formanns enn sem komið er, en ef þær koma fram verða þær kynntar félagsmönnum hálfum mánuði fyrir aðalfund eins og lög gera ráð fyrir, eða þ. 8. mars n.k.

Vegna anna mun ég Guðrún Tryggvadóttir hætta sem formaður félagsins þó að ég hafi verið endurkjörin til þriggja ára í fyrra. Ég gef þó kost á mér áframhaldandi stjórnarsetu. Kjósa þarf því nýjan formann að þessu sinni. Þau Heiðdís Gunnarsdóttir og Eyþór H. Ólafsson gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og því þarf að kjósa nýja stjórnarmenn í þeirra stað. Svanur Jóhannesson, Inga Jónsdóttir og Hlíf S. Arndal voru kjörin til tveggja ára í fyrra og gefa öll kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Þá verður kjörinn einn varamaður til eins árs.

Vakin er athygli á því að allir félagar geta gefið kost á sér til formanns eða stjórnarmanns. Vinsamlegast sendið tilkynningu um framboð til undirritaðrar fyrir 8. mars nk.

Tillaga er frá stjórn um að félagsgjald verði kr. 2.500.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta.

F.h. stjórnar Listvinafélagsins í Hveragerði
Guðrún Tryggvadóttir
formaður.

Úr lögum félagsins:
5.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, þ.e.: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og að auki tveim varamönnum. Formaður skal kosinn sérstaklega til þriggja ára. Aðra stjórnarmenn og einn varamann skal kjósa til tveggja ára (í fyrsta skipti skal kjósa 2 stjórnarmenn og einn varamann til eins árs.) Kosið skal um tvo stjórnarmenn og einn varamann árlega. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Heimilt er að endurkjósa fráfarandi stjórnarmenn, gefi þeir kost á sér.

Listamannabærinn Hveragerði

11 jan
11. janúar 2016
Listasafn Árnesinga sýnir nú fyrirhugaða útisýningu Listvinafélagsins í Hveragerði „Listamannabærinn Hveragerði“ en hún verður sett upp í Lystigarðinum í Hveragerði á þessu ári. Auk þess er fyrri sýning félagsins nú til sýnis í Listasafni Árnesinga en hún var hönnuð sem farandsýning enda ekkert fast húsnæði fyrir sýningu sem þessa fyrir hendi í Hveragerði. Sýningin stendur til 21. febrúar og er opin á almennum opnunartímum safnsins, frá fimmtudögum til sunnudaga frá kl. 12:00 til 18:00.
Sýningin var fyrst sett upp í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk sumarið 2012 og kynnir fyrstu ár þéttbýlismyndunar í Hveragerði og sex rithöfunda sem settust að í Hveragerði á þeim tíma. Þeir voru: Kristján frá Djúpalæk, Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Valdís Halldórsdóttir, Gunnar Benediktsson og séra Helgi Sveinsson.
Á útisýningunni munu fleiri listamenn bætast í hópinn, tónsmiðurinn Ingunn Bjarnadóttir og myndlistarmennirnir Kristinn Pétursson og Höskuldur Björnsson. Auk þess sem lifandi gallerí mun fjalla um eldri og yngri listamenn allra listgreina.
Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður og formaður Listvinafélagsins í Hveragerði hannaði báðar sýningarnar.