Látinn félagi

04 maí
4. maí 2016

Vildís Kristmannsdóttir
Vildís Kristmannsdóttir Gudmundsson fæddist í Kaupmannahöfn 14. september 1938. Hún lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 21. apríl 2016.
vildisVildís var dóttir hjónanna Kristmanns Guðmundssonar rithöfundar, f. 23. október 1901, d. 20. nóvember 1983, og Ingibjargar Guðmundsdóttur, húsfreyju og saumakonu, f. 8. mars 1916, d. 9. september 1968. Systur hennar voru, samfeðra: Randý, f. 26. september 1926, d. 17. október 1985, húsmóðir í Noregi, Hrefna, f. 20. maí 1944, prófessor emeritus, Ninja, f. 17. september 1950, paralegal í Bandaríkjunum, Ingilín, f. 30. apríl 1973, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Kaðlín, f. 2. febrúar 1976, verslunareigandi. Bróðir Vildísar sammæðra er Óðinn Geirsson, f. 7. janúar 1943, framkvæmdastjóri. Vildís giftist 17. nóvember 1956 eftirlifandi eiginmanni sínum Árna Edwins, fyrrverandi framkvæmdastjóra, f. 23. desember 1933.

Vildís ólst upp í Reykjavík hjá móður sinni en dvaldi langdvölum hjá föður sínum í Hveragerði á uppvaxtarárunum. Undirritaður man vel eftir henni þar á þeim árum í Skáldagötunni, þeirri frægu götu í þorpinu okkar, Hveragerði, en heimili okkar voru sitt hvorum megin götunnar og þónokkur samgangur var þar á milli. Vildís kom oft í heimsókn til pabba síns og ljómaði alltaf af ánægju þegar hún sá hann en þau voru mjög samrýnd.  Það var einmitt á þessum árum sem hinn frægi skrúðgarður Kristmanns var í uppbyggingu og Vildís hafði mjög gaman af að leika sér þar og skoða hinar ýmsu jurtir sem pabbi hennar gróðursetti.  Tjörnin, blómin og  fallegu steinarnir úr Varmá voru hennar dýrðarheimur sem hún lifði sig vel inn í og kunni að meta. Það er dýrmætt fyrir barn að hafa átt slíka æskudaga. Þarna ólst hún líka upp með eldri systur sinni Randý, sem var þá nær fulltíða og var henni mikil stoð og stytta.

Vildís var félagi í Listvinafélaginu í Hveragerði og búin að vera það frá stofnun. Hún studdi það með þátttöku sinni og fjárframlagi á sínum tíma eins og önnur skáldabörn.

Við minnumst Vildísar með virðingu og sendum fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.

Svanur Jóhannesson

0 svör

Skildu eftir svar

Taktu þátt í umræðunni!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *