Fréttir

Ný stjórn Listvinafélagsins

04 maí
4. maí 2016

Ný stjórn Listvinafélagsins í Hveragerði var kjörin þann 30. apríl 2016. Gísli Páll Pálsson var kjörinn formaður og stjórnin skipti síðan með sér verkum: Inga Jónsdóttir varaformaður, Svanur Jóhannesson gjaldkeri, Njörður Sigurðsson ritari, Guðrún Tryggvadóttir meðstjórnandi og Hlíf Arndal og Sæunn Freydís Grímsdóttir eru varamenn í stjórn.

Fundargerðir aðalfunda má finna hér.

Uppfært: 19. september 2016: Breytingar hafa orðið á stjórn Listvinafélagsins. Á fundi stjórnar 30. ágúst sl. tók varaformaður Inga Jónsdóttir við sem formaður, en Gísli sagði sig úr stjórn. Hlíf Arndal kom inn sem aðalmaður.  Fullskipað verður í stjórn á næsta aðalfundi. Stjórnin þakkar Gísla góð störf fyrir félagið.

Boð til aðalfundar

06 mar
6. mars 2016

Kæri félagi í Listvinafélaginu í Hveragerði.

Aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 22. mars 2016, kl. 18.00 í Listasafni Árnesinga, Austurmörk 21 í Hveragerði.
Boðið verður upp á súpu og brauð.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf skv. samþykktum félagsins.

Tillögur um lagabreytingar hafa ekki borist til formanns enn sem komið er, en ef þær koma fram verða þær kynntar félagsmönnum hálfum mánuði fyrir aðalfund eins og lög gera ráð fyrir, eða þ. 8. mars n.k.

Vegna anna mun ég Guðrún Tryggvadóttir hætta sem formaður félagsins þó að ég hafi verið endurkjörin til þriggja ára í fyrra. Ég gef þó kost á mér áframhaldandi stjórnarsetu. Kjósa þarf því nýjan formann að þessu sinni. Þau Heiðdís Gunnarsdóttir og Eyþór H. Ólafsson gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og því þarf að kjósa nýja stjórnarmenn í þeirra stað. Svanur Jóhannesson, Inga Jónsdóttir og Hlíf S. Arndal voru kjörin til tveggja ára í fyrra og gefa öll kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Þá verður kjörinn einn varamaður til eins árs.

Vakin er athygli á því að allir félagar geta gefið kost á sér til formanns eða stjórnarmanns. Vinsamlegast sendið tilkynningu um framboð til undirritaðrar fyrir 8. mars nk.

Tillaga er frá stjórn um að félagsgjald verði kr. 2.500.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta.

F.h. stjórnar Listvinafélagsins í Hveragerði
Guðrún Tryggvadóttir
formaður.

Úr lögum félagsins:
5.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, þ.e.: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og að auki tveim varamönnum. Formaður skal kosinn sérstaklega til þriggja ára. Aðra stjórnarmenn og einn varamann skal kjósa til tveggja ára (í fyrsta skipti skal kjósa 2 stjórnarmenn og einn varamann til eins árs.) Kosið skal um tvo stjórnarmenn og einn varamann árlega. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Heimilt er að endurkjósa fráfarandi stjórnarmenn, gefi þeir kost á sér.

Listamannabærinn Hveragerði

11 jan
11. janúar 2016
Listasafn Árnesinga sýnir nú fyrirhugaða útisýningu Listvinafélagsins í Hveragerði „Listamannabærinn Hveragerði“ en hún verður sett upp í Lystigarðinum í Hveragerði á þessu ári. Auk þess er fyrri sýning félagsins nú til sýnis í Listasafni Árnesinga en hún var hönnuð sem farandsýning enda ekkert fast húsnæði fyrir sýningu sem þessa fyrir hendi í Hveragerði. Sýningin stendur til 21. febrúar og er opin á almennum opnunartímum safnsins, frá fimmtudögum til sunnudaga frá kl. 12:00 til 18:00.
Sýningin var fyrst sett upp í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk sumarið 2012 og kynnir fyrstu ár þéttbýlismyndunar í Hveragerði og sex rithöfunda sem settust að í Hveragerði á þeim tíma. Þeir voru: Kristján frá Djúpalæk, Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Valdís Halldórsdóttir, Gunnar Benediktsson og séra Helgi Sveinsson.
Á útisýningunni munu fleiri listamenn bætast í hópinn, tónsmiðurinn Ingunn Bjarnadóttir og myndlistarmennirnir Kristinn Pétursson og Höskuldur Björnsson. Auk þess sem lifandi gallerí mun fjalla um eldri og yngri listamenn allra listgreina.
Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður og formaður Listvinafélagsins í Hveragerði hannaði báðar sýningarnar.

Jólin koma gefin út á ensku

02 des
2. desember 2015

Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum er nú komin út í enskri þýðingu Hallbergs Hallmundssonar. Bókina prýða sem fyrr frábærar teikningar Tryggva Magnússonar. Jólin koma hefur í áratugi verið ein vinsælasta barnabók í flokki ljóða sem gefin hefur verið út á Íslandi og verið endurprentuð meira en þrjátíu sinnum.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebook.

Af hverju þarf ég að lesa?

09 nóv
9. nóvember 2015

Málþing Bókabæjanna austanfjalls:

Af hverju þarf ég að lesa?
Haldið fimmtudaginn 12. nóvember 2015 kl. 17:30 í Ráðhúsi Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn.

Dagskrá
17:30 – Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra setur málþingið.
17:40 – Gylfi Jón Gylfason.
18:00 – Margrét Tryggvadóttir: Skipta barnabækur máli?
18:20 – Gerður Kristný: „Bækur breyta heiminum“.
18:40 – Hlé
19:10 – Lára Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO: „Komdu með á hugarflug“.
19:30 – Andri Snær Magnason.
19: 50 – Spurningar úr sal.
20:00 – Dagskrárlok

Bókabæirnir austanfjalls vilja auka hróður barnabókarinnar og vekja athygli á mikilvægi barnabóka í eflingu læsis. Því munu þeir standa fyrir málþinginu „Af hverju þarf ég að lesa?“ sem er sjálfstætt framhald Barnabókahátíðar Bókabæjanna austanfjalls sem haldin var í í Bókabæjunum austanfjalls 18. og 19. september 2015. Inntak málþings er barnabókmenntir og læsi – hlutverk barnabókarinnar í eflingu læsis. Spurningunum „af hverju erum við að þessu?“ og „af hverju þurfa börn að lesa?“ verður svarað frá hinum ýmsu sjónarhornum.