09 nóv

Erindi um Kristján frá Djúpalæk

Flutt af Aðalbjörgu Bragadóttur á „Safnahelgi á Suðurlandi“ á Bókasafninu í Hveragerði 2. nóvember 2013

Komið þið sæl. Ég heiti Aðalbjörg og ætla að ræða við ykkur um ljóðagerð Kristjáns frá Djúpalæk. Ég er íslenskufræðingur og starfa sem íslenskukennari við Menntaskólann að Laugarvatni. Þegar ég lauk meistaraprófi frá Háskóla Íslands í íslenskum bókmenntum ákvað ég að skrifa lokaritgerðina mína um Kristján. Ég er sjálf frá Akureyri og þekkti nokkuð til ljóða Kristjáns þegar ég hóf mitt háskólanám. Þar komst ég í kynni við nokkur ljóðskáld 20. aldar, eins og Tómas Guðmundsson og Stein Steinarr, sem og öll atómskáldin, en að þeim mætu mönnum ólöstuðum saknaði ég nafnanna sem ég þekkti að norðan. Hvar var Kristján frá Djúpalæk og jafnvel Davíð Stefánsson frá Fagraskógi?

Ég greip tækifærið þegar ég skrifaði MA-ritgerðina mína og dembdi mér í skáldskap Kristjáns. Sú vinna var afar skemmtileg, aðallega af því Kristján var svo áhugaverður maður og fjölhæft skáld. Hann var afkastamikið ljóðskáld og gaf alls út þrettán frumsamdar ljóðabækur, þar af eina með sönglagatextum. Auk þess kom tvisvar út úrval ljóða hans, á fimmtugs- og sjötugsafmælum hans. Fjölbreytileiki ljóða Kristjáns er mikill en hann orti undir ýmsum bragformum og formleysum. Í grunninn var hann hefðbundinn að formi en nútímalegur að efnisvali, þar sem hann deilir gjarnan á samtíma sinn. Hann hafði sterka grenndarvitund sem sést vel í ljóðum hans og öðrum skrifum. Kristján var ekki langskólagenginn, heldur verkamaður og landsbyggðarmaður sem vildi ekki búa í Reykjavík. Fyrir vikið er staður hans í íslenskum bókmenntasögum ekki stór en rými hans í íslenskri alþýðumenningu er þeim mun stærra. Kristján þótti of afkastamikill, of alþýðlegur, jafnvel svolítið sveitó, og ekki alltaf nægilega vandvirkur fyrir bókmenntaelítuna sem réði skrifum um bókmenntir. Á endanum hætti Kristján að skrifa fyrir þennan skoðanamyndandi hóp og tók til við að skrifa eingöngu fyrir fólkið. Engu að síður eru ljóð hans enn flutt, enn er dansað undir dægurlagatextum hans og þýðing hans á t.d. Dýrunum í Hálsaskógi er enn sungin af miklum móð af yngstu kynslóðinni.

Kristján fæddist 16. júlí 1916 og ólst upp við kröpp kjör að Djúpalæk í Norður-Múlasýslu. Hann var einn af fjórtán börnum foreldra sinna, en flest börnin létust ung. Mikil fátækt var á heimilinu og lýsti Kristján lífskjörum sínum í bernsku á eftirminnilegan hátt í bókinni Á varinhellunni: Bernskumyndir af Langanesströndum sem út kom 1984. Það er alveg ljóst að uppeldisaðstæður Kristjáns höfðu mikil áhrif á höfundarferil hans. Í ljóðum hans er bernskumyndin einatt hörð, full af raunsæi en einnig ættjarðarást og drifkrafti, eins og sjá má af fyrsta erindi ljóðsins „Hugleiðingar sveitamannsins“ úr fyrstu ljóðabók skáldsins, Frá nyrstu ströndum:

Ég ólst upp við fátækt á afskekktri strönd
með æskunnar framadrauma.
Að arfi ég fékk hvorki fé né lönd,
en fræðslu og þekking nauma.
Útþráin dró mína ungu lund
til ókunnra sveita og fjalla.
Og nú er hún komin, sú stóra stund,
til starfa mig skyldur kalla.

Náttúran og lífsreynslan eru ávallt nálæg minni í kveðskap Kristjáns. Hann var alþýðuskáld í þeim skilningi að hann orti fyrir fólkið í landinu á tungumáli sem það skildi og undir bragarháttum sem það þekkti. Í ljóðum hans koma oft fyrir örnefni og vísanir í þjóðsagnaarf sem er sameiginlegur öllum þeim sem eiga íslensku að móðurmáli.

Íslensk náttúra er sérstaklega fyrirferðamikil í ljóðum Kristjáns. Lítið dæmi er ljóðið „Þetta land“ úr ljóðabókinni Sólin og ég (1975) þar sem landið er lífið og lífið landið eins og Kristján yrkir á einfaldan og fallegan hátt:

Þetta land geymir allt, sem ég ann.
Býr í árniði grunntónn míns lags.
Hjá þess jurt veit ég blómálf míns brags.
Milli bjarkanna yndi ég fann.

Ber mér útræna ilminn frá sjó.
Blærinn angan frá lyngi í mó.

Djúpa hugró á fjöllum ég finn.
Meðal fólksins er vettvangur minn.

Þetta land skamma stund bjó mér stað.
Ég er strá í þess mold. Ég er það.

Þrátt fyrir óblíða ytri náttúru býr náttúran einnig í okkur og þetta tvennt verður ekki skilið að. Eins og sjá má af þessu litla dæmi úr ótal náttúruljóðum Kristjáns er náttúruvitund hans sterk og samvafin ljóðagerð hans frá upphafi til enda.

Þegar Kristján kom í heiminn árið 1916 geisaði stríð í Evrópu. Tuttugu og sjö árum síðar, þegar Kristján sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, var mannskepnan aftur í stríðsham og Evrópa logaði í ófriði. Á Íslandi áttu örar þjóðfélagsbreytingar sér stað, mörg gömul og gróin gildi virtust á undanhaldi og trúin á sveitirnar var ekki söm meðan erlend áhrif festu rætur. Þessa ólgu má sjá skýrt þegar litið er á íslenskar bókmenntir sem skrifaðar voru á styrjaldarárunum. Segja má að skáldin hafi skipt sér í tvær fylkingar. Mörg skáld, þeirra á meðal Kristján, gerðust eins konar varðmenn sveitanna og þeirra gilda sem höfðu fylgt þeim frá fornu fari. Önnur skáld tóku nýjum tímum tveimur höndum og boðuðu róttækar skoðanir undir róttækum bragarháttum. Úr varð einhvers konar barátta hefðarsinna og módernista.

Segja má að Kristján sé nokkurs konar nútímalegur hefðarsinni. Hann var með sterka grenndarvitund sem birtist í skrifum hans um sveitamenningu og nærumhverfi sitt, hvort sem það er Langanessströnd, Hveragerði eða Akureyri. Hugtakið grenndarvitund er í raun heildarheiti yfir það sem kalla má sveitar-, héraðs- eða byggðarvitund. Grenndarvitund birtist í væntumþykju til tiltekins umhverfis eða landsvæðis, sögu þess, menningar, náttúru og hvers kyns sérkenna. Þetta minni má sjá aftur og aftur í gegnum höfundaferil Kristjáns. Góð dæmi eru til að mynda ljóðið „Heimanfylgja“ úr Villtur vegar (1945) þar sem segir: „Alltaf speglast mér í muna / mynd þín, Austurland.“ Í ljóðabókinni Lífið kallar (1950) sem er ávöxtur Reykjavíkurdvalar segir í ljóðinu „Tónn“:

Lífs míns tónn er löngu breyttur.
− lag með fölskum hreim.
Ég er gestur, þögull, þreyttur.
Þrái norður, heim.

Það er alveg ljóst þegar skáldskapur Kristjáns er skoðaður að hann átti ekki alltaf mikla samleið með módernistum höfuðborgarinnar. Engu að síður samdi hann þónokkuð af skáldskap sem má með góðu móti flokka sem módernískan. Hann átti auðvelt með að flakka milli hefðbundinna bragarhátta og óhefðbundins forms, og efniviður ljóða hans var oft á tíðum mjög nútímalegur. Kristján var sósíalisti alla ævi og á tímabili kommúnisti og málefni líðandi stundar rötuðu oft í kveðskap hans.

Eitt þekktasta ljóð Kristjáns, „Slysaskot í Palestínu,“ birtist fyrst á prenti í þriðju ljóðabók hans, Í þagnarskógi, árið 1948, og varð þegar vinsælt meðal alþýðu. Í könnun frá árinu 2006 um ljóðaval keppenda í Stóru upplestrarkeppninni kemur í ljós að börn og unglingar velja oftast að lesa Slysaskotið eða „Fjallgöngu“ Tómasar Guðmundssonar.  Þessi tvö ljóð eru þau vinsælustu ár eftir ár. Í könnuninni er talið líklegt að börnin velji sér þessi tvö ljóð þar sem þau bæði spila á tilfinningar lesanda og áheyrenda. Í ljóði Tómasar er það óttinn við að hrapa niður fjallshlíðina og gleðin sem felst í því að ná hæsta hjalla, hjá Kristjáni þarf lesandinn að túlka hina miklu hryggð sem kristallast þegar dagsins djarfi dáti horfir á sundurskotna, blóðuga höfuðkúpu stúlkubarns og afsökunina sem felst í þeim tvískinnungi að það hafi nú reyndar staðið til að skjóta föðurinn. Eins og það sé í sjálfu sér réttlætanlegt að taka líf fullorðins fólks og gera börn munaðarlaus.

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg, dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd er stór. Ó systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

Keppendum í upplestrarkeppninni tekst misjafnlega til við flutning þessa ljóðs sem ekki er að undra. Það er bæði beitt og átakanlegt og hefur snert við hjörtum lesenda áratugum saman. Það hefur þannig orðið að eins konar einkennisljóði Kristjáns og haldið heiðri hans hátt á lofti. Því er undarlegt að bókmenntafræðingar og aðrir sem rita um ljóðlist hafa sniðgengið það á síðustu árum. Í Íslenskri bókmenntasögu, fimmta bindi, minnist Silja Aðalsteinsdóttir ekki einu orði á „Slysaskotið“ í átakanlega stuttum kafla um Kristján þar sem allur höfundarferill hans er afgreiddur á hálfri blaðsíðu. Sú umfjöllun er í takt við þá meðferð sem Kristján hefur fengið hjá bókmenntafræðingum hingað til því hún hefur verið mjög lítil, ef einhver. Segja má að um Kristján hafi ríkt þögn af hálfu fræðinganna þrátt fyrir góðar umsagnir hjá samtíma gagnrýnendum og velþóknun almennings.

Hylli almennings jókst enn frekar þegar Kristján snéri sér að samningu dægurlagatexta. Um og eftir seinna stríð fjölgaði skemmtistöðum verulega og dægurlagasöngvarar á borð við Hauk Morthens og Alfreð Clausen stálu senunni. Fyrst í stað var sungið á ensku en nokkur skáld, þeirra á meðal Kristján, gerðu samningu íslenskra dægurlagatexta að þjóðernissjónarmiði. Sjálfur segir Kristján í viðtalsbók Valgeirs Sigurðssonar frá árinu 1978 þetta um dægurlagatextana:

„Fyrst í stað var þetta þjóðernisbarátta. Eins og ég hef margsagt, þá blöskraði mér og öðrum á stríðsárunum og næstu árum þar á eftir, hversu amerískir söngvar áttu greiða leið að flestu fólki. Mér leiddist að heyra ekkert annað en ensku, svo að segja í hvert einasta skipti, sem ég hlustaði á danslög í útvarpinu. Það varð áhugamál mitt og margra annarra manna að skapa íslenzka dansmúsík með íslenzkum textum. Ég vann að þessu eins og hverju öðru málefni, sem mér þótti nokkru varða að hefði framgang, þar og þá, en seinna varð þessi iðja blátt áfram atvinna, brauðstrit.“

Söngtextar Kristjáns slógu heldur betur í gegn, enda eru þeir margir hreint afbragð, einlæg og einföld ljóðagerð sem allir skilja, jafnt ungir sem aldnir. Dæmi um texta eru „Sjómannavals“, þar sem „Gefur á bátinn við Grænland / og gustar um sigluna kalt“ og „Þórður sjóari“, þar sem síendurtekið er stefið „Ja, sjómennskan er ekkert grín. / Þó skildi ég sigla um eilífan aldur / ef öldurnar breyttustu í vín.“ Aðrir þekktir textar eru „Nótt í Atlavík,“ „Hreðavatnsvals“ og „Kvöldið er okkar“ og vor um Vaglaskóg, sem er í persónulegu uppáhaldi hjá mér.

Á áttunda áratugnum vann Kristján með Vilhjálmi Vilhjálmssyni tónlistarmanni og árið 1976 kom út hljómplatan „Með sínu nefi. Ljóð og textar eftir Kristján frá Djúpalæk“. Á þeirri plötu má heyra Villa Vill syngja frumsamin lög við ljóð Kristjáns. Þessi plata er gott dæmi um þau áhrif sem Kristján hafði á tónlistarfólk þessa tíma. Vilhjálmur tók sér einnig heilmikið höfundarleyfi og skeytti gjarnan saman nokkrum ljóðum í einn texta. Þannig er til að mynda textinn við lagið „Lífið er kvikmynd“ samsuða úr fimm ljóðum Kristjáns úr ljóðabókinni Þrílækir. Endurtekið stef í laginu er ljóðið „Lífið“ sem er á þessa leið:

Lífið er kvikmynd
leikin af stjörnum.
Myndin er ekki
ætluð börnum.

Það er ekki hægt að enda erindi um Kristján frá Djúpalæk án þess að minnast á þýðingar hans á ástsælum barnaleikritum Thorbjarnar Egner. Söngtextarnir í „Dýrunum í Hálsaskógi“ og „Kardimommubænum“ eru fyrir löngu orðnir klassískir og það var mikil gæfa að jafn fært ljóðskáld og Kristján skyldi fengið til að þýða og endursemja þessa söngtexta. Svo læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ævintýri músarinnar Pílu pínu, frá árinu 1980, eru einnig ógleymanleg þeim sem á hlýddu. Sagan um Pílu pínu var samvinnuverkefni Kristjáns og Heiðdísar Norðfjörð sem samdi lögin, en samhliða barnabókinni var gefin út plata með söngvunum í umsjón Ragnhildar Gísladóttur. Ég get svo sannarlega vottað það að stór aldurshópur þekkir lögin um Pílu sem lagði af stað í hættulega ferð upp Lyngbrekkulækinn í leit að uppruna sínum.

Mér þykir við hæfi að enda þetta erindi á að fara með „Vögguvísu“ Lilla klifurmúsar. Í þessu litla en ógleymanlega kvæði svæfir Lilli klifurmús neikvæð öfl í skóginum, enda eiga öll dýrin að vera vinir, sama hvaða stétt þau tilheyra eða hvar í skóginum þau búa. Í vögguvísunni eru allir jafnir:

Dvel ég í draumahöll
og dagana lofa.
Litlar mýs um löndin öll
liggja nú og sofa.
Sígur ró á djúp og dal
dýr til hvílu ganga.
Einnig sofna skolli skal
með skottið undir vanga.

Ég þakka áheyrnina. Takk fyrir mig.